Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Þorsteinn Már varpar allri ábyrgð á Jóhannes

Mynd með færslu
 Mynd: Samherji.is - Skjáskot
„Það voru okkur mikil vonbrigði að komast að því að Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri og stjórnarmaður Samherjafélaganna í Namibíu, virðist hafa tekið þátt í gagnrýniverðum viðskiptaháttum og hugsanlega flækt Samherja í viðskipti sem kunna að vera ólögmæt,“ er haft eftir Þorsteini Má Baldvinssyni, forstjóra Samherja, í yfirlýsingu frá félaginu sem birt var á vef félagsins rétt í þessu. Samherji vildi ekki veita fréttastofu viðtal fyrr í kvöld þegar eftir því var leitast.

Í yfirlýsingunni segir að Jóhannesi hafi verið sagt upp störfum árið 2016 eftir að hann hafi misfarið með fé og hegðað sér með óforsvaranlegum hætti. Nú hafi hann viðurkennt að hafa tekið þátt í ólöglegri starfsemi á meðan hann hafi stýrt dótturfélögum Samherja í Namibíu. 

Segjast ekki hafa vitað af umfangi og eðli viðskiptanna

Þar til nýlega hafi Samherji ekki haft neina vitneskju um umfang og eðli þeirra viðskiptahátta sem Jóhannes hafi stundað.  Þá er dregið í efa að viðskiptahættirnir hafi verið með þeim hætti sem Jóhannes lýsir. 

Eins og þegar hafi verið greint frá hafi Samherji ráðið alþjóðlegu lögmansstofuna Wikborg Rein í Noregi til að rannsaka starfsemina í Namibíu. Í þeirri rannsókn verði ekkert undanskilið og niðurstöður birtar þegar þær liggi fyrir.

Samherji hefur „ekkert að fela“

„Okkur er illa brugðið. Ekki einungis við það að Jóhannes staðhæfi að hann hafi tekið þátt í starfsemi af því tagi sem hann lýsir en ekki síður að hann skuli einnig beina ásökunum sínum að fyrrum samstarfsfólki sínu hjá Samherja. Þetta eru ekki vinnubrögð sem við könnumst við,“ segir Þorsteinn Már. 

Þá segir jafnframt í yfirlýsingunni að Samherji hafi ávallt lagt sig fram við að starfa í samræmi við lög og reglur á hverjum stað. Samherji muni starfa með hlutaðeigandi stjórnvöldum sem kunna að rannsaka umrædd viðskipti í namibískum sjávarútvegi. Verði af slíkri rannsókn hafi Samherji ekkert að fela.