Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Þorsteinn líklega að hætta á þingi

27.08.2016 - 16:30
Mynd með færslu
Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokks. Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Þorsteinn Sæmundsson, sem sóttist eftir að leiða lista Framsóknarflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður, gaf ekki kost á sér í annað sætið eftir að hafa tapað fyrir Karli Garðarssyni í baráttunni um oddvitasætið. Þorsteinn segist ekki hafa ákveðið hvert framhaldið verði en það líti allt út fyrir það núna að hann sé að hætta á þingi. Þorsteinn yrði 8. þingmaður flokksins til að hætta eftir þetta kjörtímabil.

Þorsteinn var þingmaður fyrir Framsóknarflokkinn í Suðvesturkjördæmi – var þar í þriðja sæti á eftir Eygló Harðardóttur og Willum Þór Þórssyni.  

Hann sóttist eftir að leiða lista flokksins í Reykjavík norður í komandi kosningum „en það var ekki eftirspurn eftir því,“ segir Þorsteinn í samtali við fréttastofu en hann kveðst ekki ganga ósáttur frá borði, Karl sé öndvegismaður og þeir sem kjósi hafi alltaf rétt fyrir sér. 

Þorsteinn segist enga ákvörðun hafa tekið um framhaldið – hvort hann snúi aftur í sitt gamla kjördæmi – en viðurkennir að flest bendi til þess að hann sé að láta af þingmennsku eftir þetta kjörtímabil. 

Framsóknarflokkurinn fékk fjóra þingmenn kjörna í Reykjavík í síðustu þingkosningum. Þrír þessara þingmanna hafa lýst því yfir að þeir ætli að hætta: þau Vigdís Hauksdóttir, Sigrún Magnúsdóttir og Frosti Sigurjónsson. Þorsteinn yrði áttundi þingmaður flokksins sem myndi hætta eftir þetta kjörtímabil. Hinir fjórir eru Jóhanna María Sigmundsdóttir, Haraldur Einarsson, Páll Jóhann Pálsson og Ásmundur Einar Daðason.

Frambjóðendur flokksins í kjördæmunum tveimur eru:
Reykjavík suður
1.    Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ráðherra
2.    Ingvar Mar Jónsson, flugstjóri og varaborgarfulltrúi
3.    Alex Björn B. Stefánsson, nemi í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands
4.    Björn Ívar Björnsson, háskólanemi
5.    Gissur Guðmundsson, matreiðslumeistari
 
Reykjavík norður
1.    Karl Garðarsson, alþingismaður
2.    Lárus Sigurður Lárusson, Hdl
3.    Sævar Þór Jónsson, Hdl
4.    Ingveldur Sæmundsdóttir, aðstoðarmaður ráðherra
5.    Gunnar Kristinn Þórðarson, stjórnsýslufræðingur
 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV