Þórólfur: Höldum áfram á sömu braut

26.03.2020 - 14:25
Mynd með færslu
 Mynd: Júlíus Sigurjónsson - Ríkislögreglustjóri
Allar forsendur eru til þess að halda áfram sömu aðgerðum og beitt hefur verið til þessa. Þetta sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir á daglegum upplýsingafundi Landlæknis og almannavarna í dag. Hann hvatti almenning til að halda áfram því starfi sem hefur verið unnið með því að gæta að hreinlæti og fjarlægð á milli fólks og virða samkomutakmarkanir sem settar hafa verið. 

Nú hafa 802 greinst með COVID-19 smit. Sautján eru inniliggjandi á spítala vegna smits og þrír á gjörgæslu. Allir þeir sem liggja á gjörgæslu eru í öndunarvél. 

Alma Möller landlæknir sagði að Landspítalinn leggði á það ríka áherslu að heilbrigðisstarfsmenn fari sérstaklega varlega varðandi smitvarnir, líka utan vinnutíma. Smit hefur komið upp meðal starfsmanna á Landakoti og ekki er hægt að taka á móti nýjum sjúklingum þar núna vegna þess. Þá hefur þurft að loka Rjóðrinu á Barnaspítala Hringsins vegna smits sem kom upp hjá starfsmanni á Barnaspítalanum. 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi