Þorgerður Katrín líkir Eyþóri við risaeðlu

10.03.2018 - 17:45
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun - RÚV
Formaður Viðreisnar líkti oddvita Sjálfstæðismanna í Reykjavík við risaeðlu á landsþingi Viðreisnar í dag. Í borgarstjórnarkosningunum mætti Sjálfstæðisflokkurinn ekki komast til valda og ekki núverandi meirihluti óbreyttur. 

Maskína Viðreisnar í borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík verður engin smásmíði, sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar í stefnuræðu sinni á landsþingi flokksins í dag.
Viðreisn hefur enn ekki birt framboðslista sinn í borginni en Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir formaður uppstillingarnefndar sagði við Fréttastofu í gær að listinn væri í raun fullskipaður. Þorgerður Katrín Gunnarssdóttir sagði í dag listann í borginni yrði kynntur á næstunni en í öðrum sveitarfélögum biði Viðreisn ýmist fram sér eða í samvinnu við aðra. 

„Í Reykjavík förum við fyrir eigin vélarafli - og sú maskína hún er engin smásmíði enda verkefnið stórt og erindið mikilvægt. Tvennt má nefnilega alls ekki gerast. Annars vegar að núverandi meirihluti Dags B. Eggertssonar haldi óbreyttur velli vegna þess að þörfin fyrir nýjar raddir, ferska vinda, viðsnúning í leikskóla- og menntunarmálum og margt fleira er gífurleg. Og hitt sem ekki má gerast er að Sjálfstæðisflokkurinn með allt sitt íhald komist til valda á grunni orðræðu oddvitans sem endurspeglar gömlu valdablokkirnar í Sjálfstæðisflokknum. Og alltaf þegar vonir eru bundnar við það að gamalkunnar risaeðlur séu að slaka eitthvað á klónni þá birtast þær skyndilega eins og grameðlurnar í Júragarðinum. Framboð Viðreisnar í Reykjavík snýst um daglegt líf fólksins í borginni frá morgni til kvölds í eiginlegri og óeiginlegri merkingu. Það snýst um hversdaginn og lífshlaupið í senn“.

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi