Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Þorgerður: Frjálslyndir kjósendur kröfuharðir

29.07.2017 - 13:01
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Viðreisn og Björt framtíð hafa ekki gert mistök þótt skoðanakannanir gefi til kynna að flokkarnir myndu ekki ná inn manni ef kosið væri í dag. Þetta sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, í Vikulokunum á Rás eitt í morgun. Flokkur hennar, Viðreisn, mæl­ist með 4,7 pró­senta fylgi í nýjustu könnunum MMR. Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, telur að stjórnarflokkarnir þurfi að skerpa áherslur sínar.

Þá telur Þorgerður að frjálslyndir kjósendur séu kröfuharðir og ekki endilega hliðhollir ákveðnum flokkum. Stjórnarsamstarfið segir hún ganga vel. „Ég segi bara að fólk er kröfuhart, sérstaklega frjályndir kjósendur,“ segir hún. „Frjálslyndir kjósendur vilja sjá ákveðnar breytingar og mengi frjálslyndra er mun stærra en birtist þarna í skoðanakönnunum. Viðreisn og Björt framtíð hafa talað eindregið fyrir frjálslyndum viðhorfum. Frjálslyndir kjósendur eru kannski ekki mjög flokkshollir eins og kjósendur gömlu flokkana hafa verið í gegnum tíðina.“

Átök innan stjórnarsamstarfsins

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, telur hins vegar að flokkarnir þurfi að skerpa áherslur sínar. Viðreisn sé flokksbrot úr Sjálfstæðisflokknum og nú þegar sjáist í átök við Sjálfstæðisflokkinn innan stjórnarsamstarfsins, ekki síst þegar fjármálaráðherra skrifaði í síðustu viku um efasemdir sínar gagnvart íslensku krónunni. 

„Jafnvel þó að ég trúi vinkonu minni Þorgerði Katrínu fyrir því að það gangi ágætlega á ríkisstjóranrfundum þá er það hinsvegar svo að það er hugmyndafræðilegur ágreiningur milli sjálfstæðisflokksins og viðreisnar,“ segir hún. „Hann er að koma í ljós aftur og aftur.“ Peninga- og gjaldmiðlastefna vegi þar einna þyngst. Bagalegt sé þegar forsætisráðherra og fjármálaráðherra tali fyrir sitthvorum gjaldmiðli, og vísar Lilja í greinaskrif Benedikts Jóhannessonar í Fréttablaðinu í síðustu viku.

Nánar er rætt við Þorgerði og Lilju í Vikulokunum á Rás 1. Einnig er rætt við Andrés Magnússon blaðamann.

Matthías Tryggvi Haraldsson
Fréttastofa RÚV