Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Þörf á samfélagsbyltingu fyrir vestan

06.09.2017 - 12:37
Mynd: Jóhannes Jónsson / Jóhannes Jónsson
Mikil umræða hefur verið að undanförnu um stöðu samfélagsins á Vestfjörðum. Pétur G. Markan, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps, segir þó að hugur sé í Vestfirðingum: „Það er búið að fýra upp í mannskapnum – sem er gott.“ Hann segir að tækifærin séu framundan en hinsvegar mæti Vestfirðingar ekki alltaf miklum skilningi. „Náttúran fyrir okkur er ekki frístundasport.“ Vestfirðingar verða boðaðir til borgarafundar á Ísafirði

Borgarbarnið, Pétur G. Markan, sem gerðist málsvari Vestfjarða, sveitarstjóri í Súðavíkurhreppi og formaður stjórnar Fjórðungssambands Vestfjarða, var gestur Morgunvaktarinnar á Rás 1. „Það eru mjög spennandi verkefni framundan á Vestfjörðum – þegar við tölum um vegasamgöngur, atvinnuuppbyggingu og raforkubyltingu. Þetta eru spennandi tímar, mun meira spennandi en við höfum verið að upplifa. En þar sem er dínamík mætast ólík sjónarmið,“ segir Pétur. Hann mótmælir því að málflutningur Tómasar Guðbjartssonar, læknis, og fleiri fari í taugarnar á Vestfirðingum. „Þetta snýst um samskipti og kurteisi og kannski hvernig maður talar við og um fólk. Svo snýst þetta um staðreyndirnar. Í svona stórum og mikilvægum málum verður að halda staðreyndum á lofti. Þegar talað er við Vestfirðinga eins og þeir viti ekki hvað þeir eiga; hafi ekki séð náttúruperlurnar sínar; séu jafnvel svo einfaldir að það sé alltaf verið að spila með þá; og svo það nýjasta, og það held ég að hafi fýrað almennilega upp í Vestfirðingum, þegar talað var um að Vestfirðingar væru ekki þess virði jafnvel þó þetta yrði að veruleika. Þótt að yrði af uppbyggingu raforkukerfisins þá væri þetta ekki þess virði. Þá hugsuðum við: Nei! Hingað og ekki lengra í umræðunni.“ Sveitarstjóranum í Súðavíkurhreppi er mikið niðri fyrir: „Fólk vill að það sé borin virðing fyrir því.“

Vestfirðingar eiga enga stóriðju og hafa ekki í langan tíma kynnst uppgangi og vexti – fyrr nú í tengslum við laxeldið. „Fólkið flytur í burtu. Ættingjar okkar, vinir okkar, samstarfsfélagar – þeir flytja í burtu. Það er ekkert erfiðara fyrir samfélag en að geta ekki séð um fólkið sitt.“

Vestfirðingar verða boðaðir til borgarafundar 24.september á Ísafirði:

„Við ætlum að hefja þar þessa raunverulegu samfélagslegu byltingu sem þarf að eiga sér stað. Stjórnmálamenn eru eitt. En fólkið sem þeir eiga að vinna fyrir þarf að vera samstíga og bera sama eldinn í brjóstinu.“

 

Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Jónsson - Morgunvaktin
Pétur G Markan á Morgunvaktinni