Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þörf á löggjöf um kynferðislega friðhelgi

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Freyr Magnússon - RÚV
Það þarf að breyta lögum til að tryggja vernd þeirra sem verða fyrir stafrænu kynferðisofbeldi. Þetta kemur fram í greinargerð sem María Rún Bjarnadóttir lögfræðingur vann fyrir ríkisstjórnina.

María leggur til að nota hugtakið kynferðisleg friðhelgi, frekar er stafrænt kynferðisofbeldi, þar sem það nái betur utan um málaflokkinn.

Aukin tækninotkun kallar á ný lög

Samkvæmt greinargerðinni verndar gildandi löggjöf kynferðislega friðhelgi einstaklinga ekki nógu vel. Þetta birtist meðal annars í óskýrri dómaframkvæmd og neikvæðri upplifun þeirra sem verða fyrir slíku ofbeldi. Laga þarf lagaumhverfið að aukinni tækninotkun í mannlegum samskiptum.  

Upplifa skömm frá lögreglu

María segir einnig í greinargerðinni að það vanti upp á stuðning og skilning í réttarvörslukerfinu í garð þeirra sem verða fyrir brotum á kynferðislegri friðhelgi. Þau upplifi meðal annars þolendaskömm frá fulltrúum lögreglunnar í skýrslutökum. 

Vill efla forvarnir og fræðslu

Að mati Maríu er brýnt að stjórnöld ráðist í heildstæða endurskoðun á málaflokknum sem fyrst. Þá sé þörf á að efla forvarnir og fræðslu um málefnið og bæta úr stuðningi við þolendur.  

Tillögurnar voru til umfjöllunar á ríkisstjórnarfundi fyrir helgi og hefur Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, hafið endurskoðun á lögunum.

Hægt er að lesa greinargerðina í heild sinni hér.