Þórdísi Kolbrúnu líst vel á arftaka sinn

Mynd með færslu
 Mynd: Gunnlaugur Starri Gylfason - RÚV
„Mér líst mjög vel á arftaka minn. Ég treysti Áslaugu Örnu mjög vel og er ótrúlega stolt. Hún mun vanda sig og hafa auðmýkt til að leita sér ráðgjafar,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, sem gegnt hefur embætti dómsmálaráðherra, um Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, sem brátt tekur við því. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins tilkynnti þingflokki Sjálfstæðisflokksins um skipun nýs ráðherra rétt í þessu. Lyklaskipti verði í byrjun næstu viku, segir Þórdís Kolbrún.

Hún ráðleggi Áslaugu Örnu að fara sér hægt þegar þess þurfi og leita sér ráðgjafar og ráða. Þá ætti hún að fylgja sinni sannfæringu og innsæi í störfum dómsmálaráðherra. 

Það sé ljúfsár tilfinning að láta af störfum sem dómsmálaráðherra. Það sé þó alltaf ákveðinn léttir að ljúka við verkefni. Þá hlakki hún til vetrarins og þeirra stóru verkefna sem tekin verða fyrir. 

Í samtali við Sigríði Dögg Auðunsdóttur fréttamann, sagði Þórdís Kolbrún að Áslaug Arna hefði ekki vitað að það stæði til að hún tæki við embættinu. Áslaug Arna er erlendis en hún tók þátt í fundinum í gegnum síma.

Kynjasjónarmið tekin til greina við valið

Tillagan um Áslaugu var samþykkt einróma í þingflokknum í dag, samkvæmt heimildum fréttastofu. Bjarni sagði valið hafa verið erfitt enda hafi þónokkrir þingmenn komið til greina. Hann segir kynjasjónamið hafa verið tekin til greina. 

Þórdís Kolbrún sagði að kynjasjónarmið skipti máli. Breið fylking þurfi að hafa breiða ásýnd. Sjálfstæðisflokkurinn hefði ákveðnu hlutverki að gegna og ætti að sýna þegar tímarnir breytast. Hún væri þó fyrst og síðast stolt af því að tilheyra flokki sem treysti ungu fólki og konum og körlum.

Tæki ekki við dómsmálaráðuneytinu til frambúðar

Þórdís Kolbrún tók sem kunnugt er við embættinu fyrr á árinu eftir að Sigríður Á. Andersen sagði af sér. Hún gerði það í kjölfar dóms Mannréttindadómstóls Evrópu sem úrskurðaði að ranglega hafi verið staðið að skipan dómara í Landsrétt.

Þórdís Kolbrún hefur gegnt embættinu samhliða því að vera ráðherra iðnaðar, nýsköpunar og ferðamála. Hún hefur áður sagt að hún tæki ekki við dómsmálaráðuneytinu til frambúðar.

 

 

 

Katrín Ásmundsdóttir
vefritstjórn
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi