Þórdís Kolbrún tekur við dómsmálunum

14.03.2019 - 15:27
Mynd: Freyr Arnarson/RÚV / Freyr Arnarson/RÚV
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir tekur tímabundið við dómsmálunum samhliða núverandi ráðherrastörfum hennar. Þetta tilkynnti Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, eftir að þingflokksfundi Sjálfstæðisflokksins lauk rétt fyrir klukkan hálf fjögur. Ráðherraskiptin fara fram á ríkisráðsfundi á Bessastöðum klukkan fjögur.

Þórdís Kolbrún varð ráðherra 11. janúar 2017 þegar hún tók sæti í stjórn Bjarna Benediktssonar. Hún tók við embætti ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Þórdís var nýliði á þingi, í Norðvesturkjördæmi, en hafði áður starfað sem aðstoðarmaður Ólafar Nordal þegar sú síðarnefnda var innanríkisráðherra. Þórdís er varaformaður Sjálfstæðisflokksins.

Bætir dómsmálunum við önnur störf

„Við höfum ákveðið að tímabundið taki Þórdís Kolbrún við ráðherraembættinu ásamt með öðrum störfum. Hún situr áfram í því ráðuneyti sem hún gegnir í dag,“ sagði Bjarni. „Ég lít á þetta sem tímabundna ráðstöfun eins og ég segi. Við erum hér að bregðast við stöðu sem kom upp í gær. Ég vil gefa mér tíma til að sitja með þingflokknum og meta stöðuna. Það eru ráðstafanir sem fylgja í kjölfarið sem tengjast þingflokknum. Til dæmis þó ekki væri nema vegna þess að ráðherra er að koma aftur í þingflokkinn og við þurfum að skipa aftur í nefndir.“

Bjarni sagði að sátt hafi verið um niðurstöðuna í þingflokknum. Hann sagði að þetta þýði ekki að það sé ekki einn augljós arftaki í flokknum. „Nei, þetta þýðir það fyrst og fremst að maður hleypur ekki til og skipar í ráðherrastól á innan við sólarhring. Það er langeðlilegast að setjast saman niður og gefa sér tíma. Auðvitað hefðum við vel getað leyst þetta í sjálfu sér en það er enginn bragur á því finnst mér að hlaupa til ef þess þarf ekki.“

Þórdís þekkir vel til í ráðuneytinu og málaflokknum og kemur því vel undirbúin í ráðuneytið, sagði Bjarni. Hann sagði að þetta væri fyrsta skref, sem viðbrögð við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu í gær og að framhaldið væri ekki ákveðið.

Sigríður geti átt afturkvæmt í ríkisstjórn

Sigríður lýsti afsögn sinni í gær sem svo að hún væri að stíga til hliðar. Bjarni segir opið fyrir að Sigríður snúi aftur. „Ég sé ekki fram á að það gerist núna á næstu vikum. En síðar á kjörtímabilinu get ég vel séð það fyrir mér eins og aðrar breytingar geta þá orðið. Hún er fullgildur þingmaður sem getur að mínu áliti starfað í stjórnarráðinu,“ sagði Bjarni. „Hvort Sigríður Andersen kemur aftur í ríkisstjórnina síðar á kjörtímabilinu er mál sem ég get ekki svarað núna en það er galopið fyrir það.“

Mynd:  / 

Rúm tvö ár á ráðherrastóli

Sigríður Á. Andersen tilkynnti í gær um afsögn sína sem dómsmálaráðherra. Hún notaði orðalagið að stíga til hliðar og hefur gefið til kynna að það sé tímabundið. Hún biðst þó lausnar og því verða ráðherraskiptin á ríkisráðsfundi sem hefst á Bessastöðum klukkan fjögur. 

Sigríður varð dómsmálaráðherra 11. janúar 2017 þegar hún tók sæti í ríkisstjórn undir forsæti Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins. Sú stjórn sprakk að kvöldi 14. september sama ár vegna deilna um uppreisn æru sem dæmdir kynferðisbrotamenn höfðu fengið í tíð forvera hennar í starfi. Þegar í ljós kom að Sigríður hafði upplýst Bjarna en ekki aðra um að faðir hans var meðal meðmælanda annars þeirra sem fengu uppreist æru, taldi Björt framtíð að alvarlegri trúnaðarbrestur hefði orðið innan stjórnar en svo að hún væri á vetur setjandi. Ríkisstjórnin sat áfram fram yfir kosningar en vék 247 dögum eftir að hún var mynduð. Hún var þá skammlífasta meirihlutastjórn lýðveldissögunnar, en einstaka minnihlutastjórnir sátu skemur.

Sigríður var áfram dómsmálaráðherra eftir myndun nýrrar ríkisstjórnar sem tók við völdum 30. nóvember 2017. Hún þurfti þó að verjast vantrausti á Alþingi aðeins nokkrum mánuðum síðar. 27 þingmenn greiddu atkvæði með vantrausti á Sigríði vegna framgöngu hennar við skipun fimmtán dómara við Landsrétt. Skipunin átti sér stað á fyrra kjörtímabili og vakti strax miklar deilur sem jukust þegar umsækjendur sem matsnefnd mat meðal fimmtán hæfustu án þess að fá starfið unnu dómsmál gegn ríkinu. 33 þingmenn greiddu hins vegar atkvæði gegn vantraustinu. Atkvæði féllu að mestu eftir flokkslínum og afstöðu til stjórnarinnar. Tveir þingmenn Vinstri grænna studdu þó vantraust en hvorugur studdi stjórnarmyndunina. Atkvæði voru greidd um vantrauststillöguna 6. mars í fyrra. Einu ári og átta dögum síðar vék Sigríður úr embætti eftir dóm Mannréttindadómstóls Evrópu sem komst að þeirri niðurstöðu að ólöglega hefði verið staðið að skipan Landsréttardómara.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi