Þorði ekki að segjast kunna að syngja

Mynd: Hrefna Björg / Hrefna Björg

Þorði ekki að segjast kunna að syngja

16.07.2018 - 12:00
Tónlistarkonan Hildur hefur komið víða við á síðustu misserum. Upp á síðkastið hefur hún ferðast um heiminn og unnið að því að semja tónlist í samstarfi við aðra listamenn. Hildur kíkti við í Núllinu og sagði frá því hvernig hún fór frá því að spila á selló í Amélie-eftirhermuhljómsveit yfir í að semja popplög í samstarfi við hina einu sönnu Loreen.

Hildur Kristín Stefánsdóttir fæddist í Bandaríkjunum en ólst upp í Hlíðunum. Hún lærði snemma á selló og söng karókí af miklum móð, en að hennar sögn lærði hún að syngja með því að herma eftir Celine Dion.

Þegar hún var á öðru ári í Menntaskólanum í Reykjavík var henni svo boðið að spila á selló í hljómsveitinni Rökkurró. Hljómsveitina vantaði þá söngkonu en Hildur var of feimin til þess að bjóða sig fram. Að lokum tókst henni þó að koma því út úr sér að hún kynni að syngja og endaði þá sem bæði sellóleikari og söngkona sveitarinnar.

Mynd með færslu
 Mynd: Matthew Eisman - Rökkurró
Hljómsveitin Rökkurró í góðu stuði.

Ætlar ekki að syngja aftur í Söngvakeppninni

Eftir M.R. lærði Hildur japönsku og bjó í kjölfarið í ár í Japan. Þar byrjaði hún að fikta við að búa til tónlist undir listamannsnafninu Lily and Fox. Verkefnið var nokkuð tilraunakennt en að hennar sögn var hún að þreifa sig áfram í tónlist á þessum tíma.

Árið 2015 tók hún svo í fyrsta skiptið þátt í Söngvakeppninni ásamt Guðfinni Sveinssyni. Þau mynduðu hljómsveitina SUNDAY og fluttu lagið Fjaðrir. Ekki leið á löngu uns Hildur tók aftur þátt í Söngvakeppninni, en það gerði hún árið 2017 en þá söng hún hinn eftirminnilega poppsmell Bammbaramm.

Hildur kveðst ekki hafa áhuga á því að taka aftur þátt í Söngvakeppninni sem söngkona en hún útilokar hins vegar ekki að taka aftur þátt sem lagahöfundur. Enda hefur hún mikið starfað sem lagahöfundur víðs vegar um heiminn upp á síðkastið.

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú
Hildur flytur lagið Bammbaramm í Söngvakeppninni.

Semur tónlist fyrir 17 ára þýskan Justin Bieber

Hildur hélt áfram að gefa út tónlist undir sínu eigin nafni og lagið hennar, I´ll walk with you, var til að mynda valið popplag ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum í fyrra.

En hún hóf líka að starfa sem lagahöfundur fyrir aðra tónlistarmenn. Síðustu mánuði hefur hún iðulega tekið þátt í svokölluðum „tónskáldabúðum“ (e. songwriting camp) þar sem margir höfundar koma saman og semja tónlist.

Hildur segir að samvinna sem þessi sé frábært verkfæri til þess að semja, það sé afar lærdómsríkt að þurfa að semja tónlist fyrir aðra vegna þess að þú semur ekki eins tónlist fyrir 17 ára þýskan Justin Bieber eins og þú myndir gera fyrir þitt eigið tónlistarverkefni. Þannig sé listamaðurinn þvingaður til að feta nýjar slóðir í sköpun sinni.

Hildur er ákveðin í að halda áfram að semja tónlist, bæði fyrir sjálfa sig og aðra. Hún segir að tónskáldaheimurinn sé harður, en markmiðið hennar er að sjálfsögðu að semja lag sem lendir á topplista einhversstaðar úti í heimi. Undirritaður hefur að minnsta kosti fulla trú á því að það sé bara tímaspursmál hvenær þessi hæfileikaríka tónlistarkona verður heimsfræg.

Hildur var mánudagsgestur í Núllinu, viðtalið við hana má heyra í spilaranum hér að ofan.