Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Þóra með forskot á Ólaf

18.05.2012 - 20:06
Mynd með færslu
 Mynd:
Þóra Arnórsdóttir nýtur ríflega átta prósentustiga forskots á Ólaf Ragnar Grímsson í nýrri skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands. Aðrir frambjóðendur eru þeim langt að baki.

Könnunin var send á nethóp Félagsvísindastofnunar, sem samanstendur af fólki 18 ára og eldri á landinu öllu og er samþykkt að taka þátt í könnunum á vegum stofnunarinnar á vefnum.

Gagnasöfnun hófst 8. maí og lauk í dag. Alls svöruðu 1.075 og svarhlutfall því 57 prósent. Svarendur voru spurðir hvaða forsetaframbjóðandi fengi atkvæði þeirra í komandi forsetakosningum. Þeir sem svöruðu „veit ekki" voru spurðir áfram hvaða frambjóðandi væri líklegastur til að fá atkvæði þeirra, og þeir sem svöruðu enn „veit ekki" voru spurðir hvort þeir væru líklegri til að kjósa Ólaf Ragnar Grímsson eða einhvern hinna frambjóðendanna. 8,5 prósent tóku ekki afstöðu.

Af þeim sem tóku afstöðu eftir að hafa verið spurðir þrívegis, segjast 46,2 prósent ætla að kjósa Þóru Arnórsdóttur, og 37,8 prósent Ólaf Ragnar Grímsson. 8,9 prósent þeirra sem tóku afstöðu ætla að kjósa Ara Trausta Guðmundsson, 3,8 prósent Andreu J. Ólafsdóttur og 2,6 prósent Herdísi Þorgeirsdóttur. 0,4 prósent segjast ætla að kjósa Ástþór Magnússon og 0,2 prósent Hannes Bjarnason. 0,1 prósent ætlaði að kjósa Jón Lárusson, en hann hefur dregið framboð sitt til baka.