Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Þór lagðist að bryggju í Grindavík í fyrsta sinn

Mynd með færslu
 Mynd: Mynd: Landhelgisgæslan
Varðskipið Þór lagðist að bryggju við Miðgarð í Grindavík í fyrsta sinn laust fyrir klukkan ellefu í morgun. Um eins konar æfingu er að ræða en tilgangurinn er fyrst og fremst að undirbúa landtengingu skipsins við spennustöð og dreifikerfi HS Veitna sem staðsett er við Miðgarð, segir í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni.

„Það er heppilegt að við vorum nýbúin að taka Miðgarð, sem skipið liggur við, í gagnið með nægilega miklu dýpi svo aðstæður eru mjög góðar,“ sagði Sigurður Kristmundsson, hafnarstjóri í Grindavík, í samtali við Valgeir Örn Ragnarsson fréttamann í hádegisfréttum útvarps.

Skipstjórnarmönnum varðskipsins gafst þarna einnig tækifæri til þess að máta sig í innsiglingunni og höfninni sjálfri. Um mikilvæga æfingu sé að ræða ef nýta þarf Þór sem hreyfanlega aflstöð eins og gert var á Dalvík í óveðrinu í desember. Skipið getur flutt 2 megavött til þess að halda gangandi í neyðartilvikum.

„Þeir reikna með að hægt er að sjá um helmingi bæjarins fyrir rafmagni,“ segir Sigurður og tekur undir að um mikið öryggismál er að ræða. „Algjörlega. Það er gott að vita til þess að þessi möguleiki er fyrir hendi,“ segir Sigurður.

Páll Geirdal, skipherra á varðskipinu Þór, segir siglinguna hafa gengið vel en þetta er í fyrsta sinn sem varðskip kemur til hafnar í Grindavík.

Sjómælinga og siglingaöryggisdeild Landhelgisgæslunnar vinnur nú að gerð nýs hafnarkorts fyrir innsiglinguna og höfnina í Grindavík.