Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Thomas Quick: Morðinginn sem myrti engan

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Thomas Quick: Morðinginn sem myrti engan

02.09.2018 - 11:38

Höfundar

Svíinn Sture Bergwall eða Thomas Quick var dæmdur fyrir átta hrottafengin morð á árunum 1994-2001. Í dag hefur hann verið hreinsaður af öllum dómum og ákærum, og er frjáls maður. Hvernig gat lygasjúkur geðsjúklingur blekkt geðlækna, lögreglu og sænskt dómskerfi árum saman?

Í ljósi sögunnar á Rás 1 fjallar um mál Sture Bergwalls í þremur þáttum. Alla þættina má finna hér í færslunni.

Mynd: SVT / SVT
Fyrsti þáttur. Um ævi og afbrotaferill Sture Bergwalls.

Bankaræningi og barnaníðingur

Sture Bergwall var lagður inn á réttargeðdeild sjúkrahússins í Säter í Dölunum 1992 eftir að hafa framið bankarán.

Hann hafði þá áður verið vistaður á deildinni 1970-1977 og framið ýmsa glæpi: misnotað unga drengi kynferðislega og stungið mann í Uppsala 1974 svo hann komst naumlega lífs af.

Hann var þá líka háður amfetamíni og fleiri efnum og hafði verið frá táningsaldri.

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia
Geðsjúkrahúsið í Säter í Dölunum, þar sem Sture Bergwall varði þremur áratugum ævinnar alls.

Bældi niður hryllilegar minningar

Á Säter í annað sinn fékk Sture framsækna sálfræðimeðferð. Þar fór fljótlega hann að endurheimta minningar, sem hann hafði bælt niður, af hryllilegu ofbeldi sem foreldar hans beittu hann í æsku, og síðan að hafa framið fjölmörg hrottafengin morð allt frá því að hann var fjórtán ára gamall.

Lögregla var kölluð til að rannsaka málið. Fyrsta morðið sem Sture játaði var morð á 11 ára dreng, Johani Asplund, í Sundsvall 1980. Því var það Sundsvall-lögreglunni sem var falið að rannsaka málið, með saksóknarann Christer van der Kwast og lögreglumanninn Seppo Penttinen í broddi fylkingar.

Í hönd fór einhver umfangsmesta lögreglurannsókn sem Svíþjóð hafði séð frá morðinu á Olof Palme. Sture Bergwall, sem tók um þetta leyti upp nafnið Thomas Quick, játaði að lokum á sig hátt í fjörutíu morð víðsvegar um Norðurlönd.

Mynd: SVT / SVT
Annar þáttur. Um rannsókn lögreglu á glæpum Stures og morðdóma. Á myndinni má sjá lögreglumenn og lækna styðja Sture um meintan morðstað.

Á sterkum lyfjum á vettvangi

Sture Bergwall hafði bælt niður minningar sínar af því að hafa framið öll þessi morð og gat ekki leyst minningarnar úr læðingi nema með sálfræðimeðferð, sem reyndist honum mjög erfið, þar eð hann fékk tíð kvíða- og æðisköst og varð að vera á sterkum róandi lyfjum til að komast í gegnum daginn.

Til að hjálpa honum að rifja upp var hann líka leiddur um vettvang hvers glæps, eða látinn vísa á morðstaði, í fylgd með lögreglu og læknum, og endurskapa hvernig hann bar sig að við hvert morð.

Aldrei fundust bein sönnunargögn gegn Sture, svosem líkamsleifar eða morðvopn, en frásagnir þóttu svo trúverðugar að hver sænskur héraðsdómstólinn á fætur öðrum fundu hann sekan.

Mynd: SVT / SVT
Þriðji þáttur. Um meðferð Stures á Säter-sjúkrahúsinu og hugmyndirnar að baki hennar. Á myndinni er Sture í dómssal og til hægri Birgitta Ståhle, hans aðalsálfræðingur.

„Konan sem bjó Thomas Quick til“

Margir sænskir fjölmiðlamenn hafa rannsakað mál Bergwalls á síðustu árum.

Þar á meðal er Dan Josefsson, sem árið 2013 gaf út bókina Mannen som slutade ljuga, Maðurinn sem hætti að ljúga. Hún fjallar öðru fremur um persónu sem Josefsson vill meina að sé í raun leyndur höfuðpaur í málinu öllu.

Það var Margit Norell, sálgreinir í Stokkhólmi, sem var leiðbeinandi eða persónulegur sálgreinir margra sem komu að máli Sture Bergwalls — sálfræðinga hans og geðlækna á Säter, sérfræðinga í rannsókninni og fleira. 

Mynd með færslu
 Mynd: SVT
Margit Norell á stofu sinni í Stokkhólmi, þar sem hún tók á móti skjólstæðingum og lærlingum í sálgreiningarfræðum.

Norell trúði heitt á að endurheimtar minningar Stures væru ekta og ódæðisverk hans afleiðing hryllilegrar misnotkunar í æsku. Hún var í bréfasamskiptum við Sture og vann árum saman að fræðilegri bók um hann, æsku hans og morð, Veröld Thomasar Quick. Bókin aldrei kom út.  

Árið 2008 játaði Sture Bergwall svo í viðtali við fréttamanninn Hannes Råstam að hafa ekki framið neitt einasta morð. Þá fór í gang fimm ára langt ferli þar sem hann var hreinsaður af öllum morðdómum og allar ákærur á hendur honum felldar niður, enda reyndist margt hafa verið misjafnt í rannsókn lögreglu. 

Sture Bergwall var svo að endingu látinn laus af réttargeðdeildinni í Säter 2015.

Ekki allir sannfærðir

Alls ekki allir eru þó sannfærðir um sakleysi Sture Bergwalls nú. Enn er reglulega deilt um málið af hörku i sænskum fjölmiðlum, en þeir sem hafa sig hvað mest í frammi þar eru ekki síst þeir sem rannsökuðu málið á sínum tíma.

Christer van der Kwast saksóknari hefur þannig gefið út bók þar sem hann mælir fyrir sekt Stures þrátt fyrir allt. Áberandi skoðanabróðir hans er fyrrverandi hæstaréttardómarinn Göran Lambertz, sem 2006 úrskurðaði að ekkert væri við dómana gegn Sture að athuga.

Hann er enn á sömu skoðun og hefur sömuleiðis gefið út bók málið. Þeir eru svo í tíðum samskiptum við aðra, úr rannsókninni og utan, sem trúa enn á sekt Stures, og hittast reglulega.

Máli Sture Bergwall er því enn ekki lokið. 

Mynd með færslu
 Mynd: Twitter
„Quick-liðið“. F.v.: Gubb-Jan Stigsson, blaðamaður Dala-Demokraten sem fyrst fjallaði um málið; Göran Lambertz, fv. hæstaréttardómari; Sven Å Christiansson, prófessor í sálfræði; Seppo Penttinen fv. lögreglumaður; Christer van der Kwast, fv. saksóknari.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Versti morðingi Norðurlandanna eða lygalaupur?