Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

„Þögnin er hans sterkasta vopn“

21.09.2017 - 15:37
Mynd: Rúv / Rúv
„Mér líður eins og það sé búið að þurrka dóminn hans út. Ég þurfti að lesa fréttina þrisvar áður en ég trúði þessu.“ Þetta segir Anna Signý Guðbjörnsdóttir um viðbrögð sín þegar hún frétti að mágur hennar hefði fengið uppreist æru fyrir sjö árum. Maðurinn var lögreglumaður. Haustið 2003 var hann dæmdur til 18 mánaða fangelsisvistar og greiðslu miskabóta fyrir að brjóta kynferðislega gegn henni og tveimur öðrum stúlkum. Allar voru þær tengdar honum fjölskylduböndum.

„Ég brotnaði bara niður“

Konan segir að með því að veita manninum uppreist æru sé verið að staðfesta það sem hann hafi alltaf haldið fram, að hann hafi ekki gert neitt rangt.

„Ég las fyrirsögnina, las hana aftur og aftur, að fyrrverandi lögreglumaður hefði fengið uppreist æru. Ég trúði þessu varla og þurfti að lesa fréttina örugglega þrisvar áður en ég trúði þessu og brotnaði bara niður. Ég var í vinnunni og ég gat bara ekki hugsað. Þetta var áfall og það að hann hafi verið með uppreist æru síðastliðin sjö ár og ég ekki haft hugmynd um það, það fannst mér ótrúlegt,“ segir Anna Signý. 

Brotin gegn Önnu stóðu yfir frá því hún var 11 ára þar til hún var 16 ára. Maðurinn var sakfelldur fyrir að hafa á þessu tímabili margsinnis káfað á henni utanklæða, ítrekað reynt að stinga tungu sinni í munn hennar og einu sinni strokið kynfæri hennar og brjóst innanklæða. Hlýða má á frásögn Önnu Signýjar í spilaranum hér fyrir ofan. Með henni í viðtalinu er frænka hennar sem maðurinn var einnig sakfelldur fyrir að brjóta gegn, hún var þá 12 ára. Hún sagði foreldrum sínum strax frá brotunum, umkvartanir hennar komu til tals í sumarbústaðaferð fjölskyldunnar, nokkru síðar. Þegar hinar stúlkurnar tvær komust að því að þær væru ekki einar ákváðu þær að segja frá. 

„Nákvæmur og samviskusamur“

Maðurinn, sem heitir Hallur Gunnar Erlingsson Reyndal, lauk afplánun árið 2005 og sótti um uppreist æru sumarið 2009. Umsókn hans fylgdu vottorð frá sjö mönnum þótt þess sé aðeins krafist að tveir menn votti að hegðun umsækjanda hafi verið góð eftir að afplánun lauk. Þrjú bréfanna eru rituð skömmu áður en maðurinn sótti um uppreist æru, tvö eru ódagsett og tvö eru dagsett áður en dómur féll í máli hans. Þau eru ekki skrifuð í tengslum við umsókn um uppreist æru og gefa augljóslega enga mynd af hegðun mannsins eftir að hann afplánaði dóm sinn. Meðmælendur lýsa honum sem nákvæmum og samviskusömum, góðum föður, vinnusömum og kátum. Í samtali við fréttastofu á mánudag minntist einn þeirra, Ólafur Guðmundsson, þess ekki að hafa skrifað bréfið til að maðurinn fengi uppreist æru, hann hafi ekki einu sinni vitað að maðurinn hefði sótt um hana.  

Segist vita um fleiri tilfelli

Þeim finnst umsagnirnar sem fylgdu umsókn mannsins skrítnar. „Að hann sé lipur í samskiptum og kátur, ég næ ekki samhenginu. Það er ekkert minnst á neina iðrun, ekkert minnst á að hann hafi reynt að gera betur eða vinna í sjálfum sér eða neitt. Sumar lýsingarnar eru ein eða tvær línur. Ég veit að einhverjir þarna eru félagar hans og fyrrverandi lögreglumenn sem voru að vinna með honum, Gunnar í Krossinum var líka þar á meðal. Glæpamenn geta alveg verið kátir sko, ég næ ekki þessari tengingu þarna á milli. Þessi maður er dæmdur barnaníðingur, við vitum að við erum ekki þær einu, við þrjár. Við vitum um fleiri tilfelli sem hafa komið upp í fjölskyldunni og mér finnst ótrúlegt að þessir menn hafi skrifað þessar umsagnir um hann, sem eru ekkert tengdar þessum glæp eða neinni iðrun,“ segir Anna. 

Frænka hennar tekur undir. „Þetta er bara svo óviðeigandi. Hafa þessir menn sem eru að skrifa þetta pælt í því, ef þeir eiga dætur, hvort þeir myndu leyfa þeim að vera einar með honum?“

„Það er ekkert ef“

Árið 2014 sleit Anna Signý öll tengsl við manninn og hálfsystur sína, eiginkonu hans, sem bar vitni gegn stúlkunum fyrir dómi. Hún segir manninn aldrei hafa viðurkennt brotin og telur að hann átti sig hugsanlega ekki á því að hann hafi gert eitthvað rangt. „Ég ákvað bara að ég yrði að vernda sjálfa mig og mín eigin börn. Þá sendi hann mér tölvupóst og þar ritar hann að ef hann hafi gert eitthvað biðjist hann afsökunar og segir að það sé almennur misskilningur að með því að fyrirgefa eitthvað sé maður að samþykkja það sem hefur gerst. Svo biðst hann afsökunar á að trufla mitt tilfinningalíf og eitthvað svona. Þetta var ótrúlega skrítið og þetta: Ef ég gerði eitthvað þá biðst ég afsökunar. Hann er dæmdur barnaníðingur. Það fer ekkert á milli mála að það er ekkert ef. Hann gerði þetta og þetta er ótrúlega erfitt af því sem barn, að lenda í þessu, þá trúir maður þessu ekki og fer að efast um sjálfan sig og þegar hann segir svona, ef, þetta er bara valdið sem hann er að sýna fram á. “

Ekki ætlunin að særa

Einn af þeim sem mælti með því að Hallur fengi uppreist æru, sendi frá sér yfirlýsingu, eftir að greint var frá nafni hans og fleiri meðmælenda í fjölmiðlum. Þar sagðist hann ekki hafa verið að firra manninn ábyrgð, heldur einungis hjálpa honum að fá að nýju borgaraleg réttindi sín í lagalegum skilningi. Í yfirlýsingunni segir meðal annars: „Kynferðisbrot eru ein viðbjóðslegustu brot sem framin eru, sérstaklega gangvart börnum og var það hvorki ætlun mín né hugsun að gera lítið úr þeim brotum eða líðan þolenda með umsagnarbréfi mínu.  Ef aðkoma mín að því að viðkomandi aðili fékk uppreist æru, hefur ýft upp djúp sár þolenda í þessu máli, þá biðst ég innilega afsökunar á því.“

Anna segir að auðvitað rífi umsagnirnar upp sár fórnarlamba. Þar sé heldur ekkert ef.

Vill að horft sé til eðlis brots

Dómsmálaráðherra vill fella ákvæði um uppreist æru úr hegningarlögum. Anna segist skilja að fólk sem gerir eitthvað heimskulegt þegar það er ungt geti fengið uppreist æru, fengið kjörgengi. Gera verði greinarmun á barnaníðingum og morðingjum annars vegar og þeim sem fremja til dæmis efnahagsbrot hins vegar. „Mér finnst þurfa að fara vel yfir þetta og að það þurfi að skilgreina þetta betur og auðvitað finnst mér að það þurfi að vera einhver iðrun og eitthvað meira en að einhver félagi þinn segi að þú sért kátur. Umsóknin hjá brotamanni þarf líka að vera ítarlegri, hann segir bara það eru liðin nógu mörg ár síðan ég afplánaði dóm, ég hef borgað skaðabæturnar, ég vil fá þetta. Ekkert um hvers vegna, til hvers hann ætli að nota þetta. Mér líður eins og hvaða glæpamaður sem er geti sótt um þetta og fengið sjálfkrafa.“

„Hann hafði ótrúlegt vald yfir tilfinningalífi mínu“ 

Anna hefur unnið mikið í sínum málum en segir að fréttirnar sem hún fékk í byrjun vikunnar hafi rifið upp gömul sár, reynsla hennar hái henni enn í dag. 

„Hann hefur ótrúlegt vald, þvílíkt vald sem hann hafði yfir mínu tilfinningalífi, þessi ár sem hann var að misnota mig og hann hefur ennþá þetta vald, að vissu leyti. Ég held að ég losni aldrei undan því. Hann braut svo illilega gagnvart mér, líkamlega, tilfinningalega, þetta situr alltaf á sálinni, þó að ég sé búin að vera mjög dugleg að leita mér hjálpar og vinna í mínum málum. Sem er örugglega ástæðan fyrir því að ég er hér í dag.“

Þöggunin hans stærsta vopn

Frænka Önnu, sem Hallur var líka sakfelldur fyrir að brjóta á í eitt skipti, sagði foreldrum sínum strax frá brotunum, umkvartanir hennar komu til tals í sumarbústaðaferð stórfjölskyldunnar, nokkru síðar. Anna segist ekki viss um að hún hefði nokkurn tímann greint foreldrum sínum frá brotunum, hefði frænka hennar ekki sagt frá. „Mér þykir þöggunin vera hans stærsta vopn, þetta var náttúrulega ótrúlega erfitt og ég hélt alltaf að ég væri ein, hann byrjaði þegar ég var það ung að ég hélt kannski að svona væri þetta bara, svo fór ég að átta mig á því að kannski ætti þetta ekki að vera svona. Ég sagði nokkrum vinkonum mínum frá og við töluðum um hvað hann væri nú ógeðslegur og svoleiðis en samt þorði ég ekki að segja foreldrum mínum frá og ég er ekki viss um að ég hefði gert það, hefði þetta ekki komið út.“

Vill að fólk þekki sögu hans

Anna segist gera sér fulla grein fyrir því að svona mál séu erfið, mál sem eiga við börn. Oft sé þetta maður á móti manni, orð á móti orði. „Ég tel fullsannað að þessi maður braut á okkur. Við vorum þrjár með sömu sögurnar. Eftir að þetta kom upp hef ég heyrt frá fleirum sem hafa lent í honum og mögulega þekkir fólk ekki sögu hans, hann er bara laus og gæti verið að umgangast börn, ungmenni, eftirlitslaus.“

En veit hún til þess að hann sé að því? 

„Ég veit það ekki, hann gæti það alveg, ég veit hann er í einhverju sjálfboðastarfi, hann er búinn að vera í kirkjustarfi.“ Þar sé auðveldur aðgangur að ungmennum sem standi veikt. 

„Loksins eru þessi mál tekin alvarlega“

Það slitnaði upp úr ríkisstjórnarsamstarfi. Fátt er nú jafn umtalað í samfélaginu og fyrirkomulag í kringum veitingu uppreistar æru. „Ég segi bara loksins, loksins er verið að taka þessi mál alvarlega. Þessir barnaníðingar fá væga dóma, eru nafnlausir, geta fengið uppreist æru ef þeir vilja. Ég er ótrúlega ánægð og vona innilega að þetta verði tekið almennilega fyrir, þessi mál endurskoðuð og þessi lög svo einhver annar þurfi ekki að ganga í gegnum það sem við erum að ganga í gegnum núna," segir Anna Signý. 

Þriðja konan sem maðurinn braut gegn býr erlendis. Hún vill ekki koma fram undir nafni en styður að fjallað sé um málið og nafn mannsins birt. Hún minnir á mikilvægi þess að aðgát sé höfð í nærveru sálar og segir að oft gleymist það að í svona málum þjáist fleiri en brotaþolar, til dæmis fjölskylda brotamanns.