Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

„Þöggunin og feluleikurinn gríðarlegur“

17.02.2018 - 19:57
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Intersex kona, sem var fyrirskipað af læknum að halda því leyndu, spyr hvers vegna börnum sé breytt með skurðaðgerð til að aðlagast kröfum samfélagsins í stað þess að breyta samfélaginu. Ráðgjafi Evrópuráðsins segir að Íslendingar fremji mannréttindabrot með því að gera óafturkræfar skurðaðgerðir á börnum sem eru intersex og fæðast með ódæmigerð líffræðileg kyneinkenni.

Mannréttindabrot á intersex börnum

Intersex fólk á Íslandi er oft látið gangast undir óafturkræfar skurðaðgerðir eða hormónameðferðir að því forspurðu. Þetta kom fram á ráðstefnu um málefni intersex fólks í dag. Piet de Bruyn, ráðgjafi Evrópuráðsins um réttindi hinsegin fólks, segir þetta hrein og klár mannréttindabrot og að Íslendingar ættu að hætta slíkum óafturkræfum inngripum. 

Piet segir mikilvægt að heilbrigðiskerfið sé í stakk búið til að sinna intersex fólki og aðstandendum þeirra. Til þess þurfi að auka fræðslu til heilbigðisstarfsfólks og annarra sem vinna með þessum hópi. Þá þurfi að banna með lögum að mismuna fólki vegna þess að það sé intersex.

En hvernig stendur Ísland miðað við nágrannalöndin varðandi réttindi intersex fólks? „Það eru engin réttindi intersex fólks,“ segir Kitty Anderson, formaður samtakanna Intersex Ísland. „Intersex fólk sem vill kvarta undan læknismeðferð sinni oft á tíðum getur það ekki vegna þess að það er tíu ára fyrningartími. Við erum ekki með neina löggjöf sem verndar intersex fólk.“

Móðurinni sagt að ljúga

Kitty segir að mikil þöggun sé í gangi varðandi intersex fólk á Íslandi. „Í mínu tilfelli var mömmu fyrirskipað að ljúga að mér til þrettán ára aldurs. Okkur var sagt að við ættum ekki að segja neinum frá þessu. Læknirinn minn skammaði mig þegar ég sagði honum að ég væri farin að segja vinum mínum frá þessu. Mömmu var bannað að segja foreldrum sínum eða systrum sínum frá þessu, þannig að þöggunin og feluleikurinn hefur verið gríðarlegur. Þetta er eitthvað sem á ekki að ræða, má ekki ræða og skal ekki ræða.“

Enn þá gerðar skurðaðgerðir á intersex börnum á íslenskum spítölum

Enn þann dag í dag eru gerðar skurðaðgerðir á intersex ungbörnum á Íslandi, án þess að nauðsyn beri til. Nefndir Sameinuðu þjóðanna telja þetta brjóta gegn samningi gegn pyntingum og annarri grimmilegri, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. „Hérna erum við ekki að tala um læknisfræðilega nauðsynleg inngrip, sem stundum þarf að framkvæma, en það er minnihluti þeirra inngripa sem eru gerð,“ segir Kitty. „Ástæðan sem er oft gefin er að það sé barninu erfitt að aðlagast samfélaginu ef að líffræðin þeirra er einhvern veginn öðruvísi, en af hverju erum við að skera upp börn til að aðlagast samfélaginu, af hverju breytum við ekki samfélaginu þannig að það sé pláss fyrir alla hér?“

 

alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV