Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Þjóðverjar kaupa Panamaskjölin

05.07.2017 - 15:15
epaselect epa05242948 Photo shows the building where the office of Panamanian law firm Mossack Fonseca is located in Panama City, Panama, 03 April 2016. 11 million documents from Mossack Fonseca database were leaked allegedly exposing high profile tax
 Mynd: EPA - EFE
Þýsk stjórnvöld hafa keypt gagnagrunn Panamaskjalanna sem sýnir eignir í þekktum skattaskjólum. Kaupverðið er talið nema um 5 milljónum evra, 600 milljónum íslenskra króna. Gögnin byggja á leka frá lögfræðistofunni Mossack Fonseca í Panama.

Fram kemur á vef BBC að þýskir dómstólar hafi komist að þeirri niðurstöðu að kaup á skjölum sem hafi verið stolið standist lög. Þetta hefur þó verið óumdeilt. 

Danskir stjórnarandstæðingar gagnrýndu til að mynda þegar dönsk stjórnvöld keyptu gögn um 500 danska ríkisborgara sem voru í Panamaskjölunum. Íslensk stjórnvöld keyptu í júní fyrir tveimur árum gögn með upplýsingum sem tengdu Íslendinga við félög í skattaskjólum á þrjátíu milljónir króna.  Fram kom í fréttum RÚV að þau gögn væru að einhverju leyti þau sömu og Panamaskjölin nema þau síðarnefndu væru ítarlegri. 

Gagnalekinn frá Mossack Fonseca er einn sá stærsti í sögunni en gögnunum var fyrst lekið til þýska blaðsins Süddeutsche Zeitung og síðar ICIJ, samtaka rannsóknarblaðamanna. Blaðið neitaði að láta skjölin af hendi þar sem slíkt kynni að koma upp um heimildarmanninn. Þetta leiddi til þess að þýsk stjórnvöld sendu sendinefnd lögreglumanna og saksóknara til Panama til að fá gögnin.

Panamaskjölin vörpuðu ljósi á hvernig fjöldi stjórnmálamanna, heimsfrægir leikarar og íþróttamenn geymdu auð sinn í þekktum skattaskjólum.   Til að mynda viðurkenndi David Cameron, þáverandi forsætisráðherra Breta, að hann hefði hagnast á aflandssjóðum föður síns, Ian Cameron.  Sjóðurinn hafði komið sér undan að greiða skatt í Bretlandi en hann var staðsettur á Bahama-eyjum og sá um stórar fjárfestingar fyrir efnamiklar fjölskyldur í Bretlandi.

Hér á landi kom í ljós að þrír ráðherrar höfðu tengsl við félög í þekktum skattaskjólum - Bjarni Benediktsson, Ólöf Nordal og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson en sá síðastnefndi sagði af sér eftir frægan Kastljós-þátt þar sem fjallað var um aflandsfélagið Wintris.

Sigmundur sagði síðar í kosningaþætti á RÚV að þingkosningarnar hefðu ekki verið haldnar snemma vegna Wintris-málsins. [...] en það er ekki hægt að biðjast afsökunar á að hafa orðið fyrir einhverju, sem ekki er hægt að kalla annað en ótrúlega árás, sem síðar hefur sýnt sig og verið sannað að var tilefnislaus og ótrúlega gróf.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV