Hljómsveitin Sigur Rós og RÚV tókust á við Þjóðveg eitt saman í hægvarpsútsendingu sem stóð í einn sólahring, 20. - 21. júní síðastliðinn. Um 500 þúsund manns horfðu á útsendinguna sem endaði á frumflutningi á nýjasta lagi Sigur Rósar, „Óveður“. Á meðan ferðinni stóð hljómaði Óveður undir í síendurútsettri útgáfu með aðstoð tónlistarforrits sem endurútsetti lagið í sífellu, sekúndu fyrir sekúndu.
Á vefsíðu Sigur Rósar og á Youtube er nú hægt að horfa á hægvarpið allt saman í 360 gráðum, þar sem áhorfendur geta snúið sjónahorninu sjálfir á alla kanta. Þá er einnig hægt að horfa á ferðina í háskerpu á síðunni, og fyrir þá sem kjósa heldur línulega dagskrá verður hægvarpið allt endursýnt á RÚV 2 frá kl. 21 í kvöld. Áhorfendum gefst einnig kostur á því að hlaða niður Route One smáforritinu í Apple-tæki, sem síendurútsetur lagið Óveður við hverja notkun.