Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Þjóðvegi eitt á Suðurlandi lokað

04.12.2015 - 12:39
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Mikill viðbúnaður er á Suðurlandi þar sem búist er við ofsaveðri þegar líður á daginn. Lögregla, Vegagerð og björgunarsveitir eru í viðbragðsstöðu. Þjóðvegi eitt verður lokað áður en versta veðrið brestur á. Bóndi í Öræfum segir vissara að festa allt lauslegt en þar gæti vindstyrkurinn náð allt að 50 metrum á sekúndu í dag.

Spáð er að versta veðrið verði undir Eyjafjöllum, við Mýrdalsjökul og í Öræfum og að veðurhæðin verði mest milli klukkan 15 og 20. Lögregla, almannavarnanefndir og fulltrúar Vegagerðarinnar á þessu svæði funduðu í morgun. Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, segir alla í viðbragðsstöðu.

Hringveginum lokað klukkan 14
„Klukkan tvö í dag er meiningin að loka hringveginum frá Markarfljóti að Breiðamerkurlóni. Það er betra að loka veginum frekar en að vera að fá fólk inn á svæðið og lenda í vandræpðum með það."

Fylgjast með ferðamönnum
„Það er töluverður fjöldi af ferðamönnum hérna sem eru á þessu svæði og á öllu Suðurlandi í sjálfu sér. Og við munum fylgjast með því og setjum þessar lokanir upp að töluverðu leyti til þess að forða því að fá þetta fólk inn á þessi slæmu veðursvæði.“

Ganga frá öllu lauslegu
Íbúar á því landsvæði sem versta veðrinu er spáð eru ýmsu vanir þegar óverður er annarsvegar. Gunnar Sigurjónsson, bóndi á Litla-Hofi í Öræfum, þekkir þetta vel. „Þessi norðaustanátt er svo byljótt hérna og veðrið hérna fer oft upp undir 40-50 metra á sekúndu þegar svona spáir. Maður reynir að ganga frá öllu lauslegu.“

Bílar skemmdust í svipuðu veðri í fyrra
Gunnar minnir á svipað veður í fyrravetur en þá skemmdust margir bílar í Öræfum. „Ætli það hafi ekki verið 15-20 bílar sem bæði rúður fóru úr og skemmdust mikið.“

Veður versnar í öðrum landshlutum
Því er spáð að verður fari einnig mjög versnandi á Austfjörðum upp úr klukkan 17. Sama á einnig við um allt norðvestanvert og norðanvert landið um kl 19:00. Ljóst er því að fjallvegum á því svæði verður lokað með kvöldinu. Útlit er fyrir að sama veður verði áfram á laugardag og þjónusta á vegum verði í lágmarki.