Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Þjóðvegi 1 við Hafnarfjall lokað

10.11.2013 - 16:00
Mynd með færslu
 Mynd:
Þjóðvegi 1 við Hafnarfjall hefur verið lokað vegna veðurs. Vindhraðinn þar mælist á milli 40 til 50 metrar á sekúndu í hviðum.

Hátt í 80 björgunarsveitarmenn sinna nú útköllum á suðvesturhorninu og búið er að kalla út meiri mannskap á höfuðborgarsvæðinu. Verkefni björgunarsveitanna hafa verið allt frá því að festa fjúkandi þakplötur upp í fjúkandi garðhús, en það var í Vallahverfinu í Hafnarfirði. 

Björgunarsveitin á Hvolsvelli var kölluð út vegna fjúkandi lausamuna í Landeyjum og á Akranesi fauk kerra og olli skemmdum bæði á húsi og bíl. Þá hefur þjóðvegi eitt við Hafnarfjall verið lokað vegna veðurs en vindhraðinn mælist þar allt að 40 til 50 metrar á sekúndu í hviðum.

Búið er að losa alla bíla sem festust í Kömbunum fyrr í dag. Mikil hálka er á Hellisheiði og í Kömbunum og leiðindaveður.  Slysavarnafélagið Landsbjörg hvetur fólk til að vera ekki á ferðinni að óþörfu og þá eingöngu á vel búnum bílum. Þá ætti að ganga tryggilega frá lausum munum.  

Stormviðvörun er fyrir öll spásvæði á sjó og hafa minni bátar og skip haldið til hafnar þangað til storminum slotar. Að sögn Landhelgisgæslunnar eru stærri skip á sjó en sum séu komin í var og bíði þess að veður lægi. Færri skip séu í landhelginni en alla jafna og þá að meðtöldum erlendum flutningaskipum. Alls eru 175 skip í landhelginni en á hefðbundnum degi væru þau um það bil 370. 

Verulegar raskanir eru á ferðum strætó vegna veðursins. Ferðir margra leiða milli Reykjavíkur og bæja á landsbyggðinni, hafa verið felldar niður í dag.