Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þjóðhátíðargestir lagðir af stað heim

Mynd með færslu
 Mynd: Ólöf Ragnarsdóttir - Aðsend mynd
Herjólfur byrjaði að sigla frá Eyjum klukkan tvö í nótt og telur lögregla að tæplega tvö þúsund þjóðhátíðargestir hafi þegar haldið heim á leið frá því í nótt. Gera má ráð fyrir að vel yfir tíu þúsund gestir hafi sótt Vestmannaeyjar heim um helgina. 

Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum náði hámarki í gærkvöld með brekkusöng í Herjólfsdal. Að sögn Jóns Braga Arnarssonar, varðstjóra hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum fór skemmtanahald vel fram. Tveir þurftu þó að gista fangageymslur vegna ölvunar.

Á Akureyri fór hátíðin ein með öllu fram. Líkt og í Eyjum hegðuðu hátíðargestir sér með prýði, fyrir utan einn sem var handtekinn vegna gruns um að hafa keyrt undir áhrifum fíkniefna. Þá þurfti annar að gista fangageymslur vegna ölvunar. 

Töluvert meira var að gera hjá lögreglu á höfuðborgarsvæðinu í nótt, en alls voru 60 mál skráð á borð lögreglu frá sjö í gærkvöld til fimm í morgun. Brotist var inn í verslun í hverfi 105 en engu stolið, eignaspjöll unnin í miðbænum og þar varð minni háttar umferðaróhapp er bíl var ekið utan í kyrrstæðan bíl.

Talsvert var um útköll vegna ölvunar og óspekta; einn var vistaður í fangageymslum af þeim sökum. Alls voru sjö ökumenn stöðvaðir vegna aksturs undir áhrifum áfengis eða fíkniefna á höfuðborgarsvæðinu.