Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Þjóðhátíð sett í brakandi blíðu

29.07.2016 - 15:18
Mynd með færslu
Frá Þjóðhátíð  Mynd: RÚV
Fjöldi fólks var saman kominn í brakandi blíðu í Herjólfsdal á setningarathöfn Þjóðhátíðar 2016 í dag. Mikil gleði og spenna er í loftinu fyrir komandi helgi. Eftir setningarathöfnina buðu heimamenn gestum upp á bakkelsi og kaffi í hvítu tjöldunum.

Búist er við þúsundum gesta um helgina. Langar raðir hafa myndast í Landeyjahöfn í morgun en Þjóðhátíðargestir streyma nú til Vestmannaeyja. Gunnlaugur Grettisson, rekstrarstjóri Herjólfs, segir að bæði gestir og starfsmenn viti nákvæmlega hvað þurfi að gera til þess að allir komist glaðir inn í bátinn. Gott veður er í Landeyjahöfn og að sögn Gunnlaugs hjálpar það alltaf mikið. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

„Þetta er nú þannig að það hafa myndast góðir verkferlar í kringum þessa helgi þannig þetta gengur allt snurðulaust fyrir sig. Fyrir helgi eru gestir svo glaðir og spenntir að fara með bátnum og svo á mánudagsmorguninn þá er mannskapurinn þreyttur og lúinn þannig að það eru allir til friðs. Það er aldrei neitt vesen í Herjólfi.“

milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV