Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Þjóðfylkingin verður tilkynnt til lögreglu

Yfirkjörstjórnir ætla að tilkynna Íslensku þjóðfylkinguna til lögreglu fyrir falskar undirskriftir á meðmælalistum með þingframboði sínu. Þetta var ákveðið á fundi yfirkjörstjórnanna í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur síðdegis. Allir fjórir framboðslistar flokksins hafa verið dregnir til baka vegna málsins.

Framboðsfrestur fyrir þingkosningarnar eftir tvær vikur rann út í gær og Íslenska þjóðfylkingin bauð fram í fjórum kjördæmum, Reykjavíkurkjördæmunum tveimur, Suðvestur- og Suðurkjördæmi.

Í gærkvöld og í dag funduðu svo yfirkjörstjórnir allra kjördæma með umboðsmönnum framboðslista til að úrskurða um lögmæti framboðanna. Allir framboðslistar voru úrskurðaðir gildir, en áður en til þess kom höfðu umboðsmenn Íslensku þjóðfylkingarinnar hins vegar tilkynnt að flokkurinn drægi alla sína lista til baka vegna athugasemda sem flokkurinn hafði fengið við meðmælendalistana.

„Það var hringt í nokkra aðila sem voru á meðmælendalistum og það voru nokkrir aðilar sem vildu ekki kannast við að hafa skrifað nöfn sín á listann,“ segir Erla S. Árnadóttir, formaður yfirkjörstjórnar í Reykjavíkurkjördæmi norður.

Það sama var svo uppi á teningnum í Suðurkjördæmi en í Suðvestri var búið að afturkalla framboðið áður en kjörstjórnin var farin að kanna meðmælendurna. Til að bjóða fram í kjördæmunum fjórum þarf samanlagt 1.350 meðmælendur. Tugir fengu símtal úr Ráðhúsi Reykjavíkur í gær sem ekki könnuðust við að hafa skrifað undir listana, og það var bara stikkprufa – það var ekki hringt í nándar nærri alla.

Mynd með færslu
Erla S. Árnadóttir og Sveinn Sveinsson eftir fund með umboðsmönnum flokka í dag. Mynd: Þór Ægisson - RÚV

„Það vakti athygli starfsmanna sem fóru yfir þetta að þetta var skrifað, sumt hvert, með sömu hendinni. Það vakti athygli þeirra og gaf þeim tilefni til að fara að hringja út og þá kom þetta í ljós,“ segir Sveinn Sveinsson, formaður yfirkjörstjórnarinnar í Reykjavíkurkjördæmi suður.

Er þetta ekki ólöglegt?
„Jú jú, auðvitað er ólöglegt að skrifa nafn annars manns. Þetta er náttúrulega fölsun,“ segir Sveinn.

Mál af þessu tagi hefur áður komið upp, eins og Sveinn minnir á. Fyrir forsetakosningarnar 2012 var framboð Ástþórs Magnússonar ógilt vegna falskra undirskrifta. Þá tilkynntu yfirkjörstjórnirnar í Reykjavík málið til lögreglu og á fundi kjörstjórnanna síðdegis í dag var ákveðið að það sama yrði gert nú: Íslenska þjóðfylkingin yrði tilkynnt til lögreglu fyrir skjalafals eftir helgi.

Lögreglurannsóknin á máli Ástþórs, sem beindist að starfsmanni framboðsins, tók á fjórða ár en var á endanum látin niður falla. Forystumenn Íslensku þjóðfylkingarinnar hafa ýmist ekki látið ná í sig í dag eða hafnað beiðni um viðtal.

Oddviti listans í Suðvesturkjördæmi, Geir Harðarson, sagði hins vegar í samtali við fréttastofu að margir hefðu starfað að framboðinu og að flokksforystan hefði tekið við meðmælendalistunum í góðri trú. Listarnir hefðu ekki verið falsaðir með vitund og vilja flokksins.