Þjóðfélagsrýnandi húmoristi

Mynd:  / 

Þjóðfélagsrýnandi húmoristi

16.02.2019 - 11:10

Höfundar

„Ég held að það sé að skapast meiri skilningur á því hvað Karólína var að gera. Hún var ekki að myndskreyta, hún var þjóðfélagsrýnandi og hún var að segja sögur af íslensku þjóðfélagi sem aðrir hafa ekki sagt. Einhvern tímann var talað um Halldór Laxness sem höfund Íslands, það má alveg kalla Karólínu höfund hins nýja Íslands eftirstríðsáranna,“ segir Aðalsteinn Ingólfsson, listfræðingur, um list Karólínu Lárusdóttur, sem lést 7. febrúar, 74 ára að aldri.

Karólína fæddist í Reykjavík 12. mars 1944. Hún nam myndlist í Sir John Cass College og Ruskin School of Fine Art á Englandi. Þar í landi bjó hún og starfaði um árabil og var myndlist hennar þannig mótuð af meginstraumum breskrar myndlistarhefðar, með áherslu á mannlíf, tæknilega fágun og vönduð vinnubrögð.

Myndheimurinn var þó íslenskur, og myndefnið sótti hún ekki síst í æskuminningar sínar, meðal annars af mannlífinu á Gullfossi og Hótel Borg á árum áður, en afi hennar var eigandi hótelsins, Jóhannes Jósepsson.

„Þetta er svolítið vanmetin myndlist. Fólk hefur verið tekið þessu sem smásögum af kómískum atburðum, en þegar þú ferð að skoða þetta í heild sinni þá er þetta mynd af íslensku þjóðfélagi á árunum eftir stríð, velmegunarárum Íslendinga, þegar þeir eru orðnir nýríkir og farnir að bera sig að eins og menningarþjóð loksins. Þetta eru oft minningar úr hennar barnæsku, sögusviðið er oft Hótel Borg þar sem hún er að hluta til alin upp,“ segir Aðalsteinn.

Mynd:  / 
Sagt var frá Karólínu Lárusdóttur í sjónvarpsfréttum RÚV 8. febrúar 2018.

„Hún er að segja frá þessu mannlífi og hún sér það fjarstæðukennda við þetta. Hún er húmoristi, það er húmor í mjög mörgum myndum hennar, og oft írónía, en aldrei kaldhæðni - henni þykir vænt um þetta fólk, en finnst það spaugilegt.“

Nánast engin verk til á íslenskum söfnum

Karólína var fígúratívur málari og málaði eingöngu mannlíf, á þeim tímum þegar slíkar myndir áttu ekki upp á pallborðið í íslensku myndlistarlífi. Karólína vann til fjölda verðlauna fyrir list sína víða um heim og seldi alla tíð mikið af verkum, en mætti lengi nokkru fálæti meðal álitsgjafa og forsvarsmanna íslenskra menningarstofnana.

„Þetta er myndlist sem er afskaplega þægileg, elskuleg, gaman að horfa á hana, vel gerð og er frásagnarleg. Þetta er allt mjög grunsamlegt í augum þeirra sem ólust upp við framúrstefnuviðhorf. Þar er mikil andstyggð á öllu sem er frásagnarlegt, það er talið tilheyra fortíðinni og jafnvel bara vera myndskreyting. Þannig að hún geldur svolítið fyrir það hjá þeim sem héldu um taumana í íslensku menningarlífi, á safnastofnunum til dæmi. Í dag er til dæmis sáralítið til eftir hana á íslenskum söfnum, þó hún njóti þessarar óhemjuvelgengni meðal almennings.“

Fjallað var um list Karólínu Lárusdóttur í Víðsjá.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Karólína Lárusdóttir látin