Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Þjóðarstolt og minjagripir eftir hrun

Mynd: RÚV / RÚV

Þjóðarstolt og minjagripir eftir hrun

12.10.2018 - 10:13

Höfundar

Fyrir hrun birtist þjóðarstolt Íslendinga gjarnan í fullyrðingum um að Íslendingar væru bestir í heimi í hinu og þessu tengdu viðskiptum. En hvar birtist stoltið eftir hrun? Kannski í lundaleppum, hrossataði og norðurljósasokkabuxum. Guðrúnu Steinþórsdóttir doktorsnemi og Bergljót Kristjánsdóttir prófessor í íslenskum bókmenntum seinni alda ræddu þessi efni á ráðstefnu Háskólans, Hrunið þið munið.

Hrossatað, lundaleppar og norðurljósasokkabuxur

Hvað er sameiginlegt með hrossataði, lundaleppum og norðurljósasokkabuxum? Jú, allt er þetta til í einhverri mynd sem minjagripir. Fyrir utan hrossatað í sinni tærustu, alla vega náttúrulegustu mynd, er til sælgæti með þessu nafni. Norðurljósasokkabuxur magna kannski ekki upp norðurljós fyrir útlendinga sem flykkjast til Íslands að sjá þetta náttúrufyrirbæri. En það má sumsé skreyta sig með ljósunum, sveipa ganglimina ljósunum. Og lundann þarf ekki lengur að kynna í minjagripagerðinni - lundinn, líka í ótrúlegustu myndum, á bókstaflega þá útgerð eins og hún leggur sig.

Ímynd sem viðskiptavild, fyrir hrun

Þessir þrír gripir voru nefndir til sögunnar í fyrirlestri þeirra Bergljótar Kristjánsdóttur prófessors í íslenskum bókmenntum og Guðrúnar Steinþórsdóttur doktorsnema á hrunráðstefnu Háskóla Íslands, Hrunið þið munið.
 
Markaðshyggjan var allsráðandi á árunum fyrir hrun, nefndi Bergljót. Í skýrslu frá 2008 var ímynd Íslands til dæmis líkt við viðskiptavild. Já, allt mátti færa til bókar. 

Þeir eru oft mjög fyndnir og eiga að vera það og algjörlega ætlað að vera það. Það er kannski verið að leika með alls konar mýtur í minjagripum, til dæmis Ísland best í heimi. Það er til dæmis  
hægt að kaupa íslenskt fjallaloft á krukkum. Það sagði mér kona sem vinnur í lundabúð að það kæmu oft útlendingar og spyrðu um þetta, hvort þetta væri til af því þeim finndist þetta svo fyndið.

Lundinn sigraði keppnina um þjóðarímyndina

Í ímyndarbókhaldinu skipta minjagripir máli. Þeir skírskota til þjóðarímynda með margvíslum hætti, jafnt á Íslandi sem annars staðar. Á Íslandi hefur lundinn orðið ofan á, jafnvel ofan á víkingunum sem sáust helst einu sinni. Sigur lundans blasir við í búðum um allt land, ekki síst að lundinn hefur skapað nýja verslunargrein, lundabúðir. 

Ef dæma má af lundaframboðinu gætu útlendingar haldið að lundinn væri einhver forn táknmynd Íslands. Ekki svo ósjaldan spurt um það. En svo er auðvitað ekki, segir Guðrún Steinþórsdóttir.

Það sem er svolítið áhugavert er lundinn. Við höldum kannski að hann bara einkennismerki Íslands og búinn að vera það heillengi. En það var fyrst byrjað að fjöldaframleiða lundavarning 2005 svo það er rosalega stutt síðan.

Skýringin á vinsælum lundans

En er einhver skýring á af hverju lundinn er orðinn svona fyrirferðarmikill á minjagripamarkaðnum íslenska?

Það er kannski það að hann er krúttlegur og hann er mannlegur. Hann hefur verið kallaður rýmsum mannlegum nöfnum eins og munkurinn í norðri. Hann er líkur mörgæsum sem fólk finnast ofboðslega sætar. Svo það er kannski það að já, hann höfðar til fólks.

Fjöldaframleiðsla ýtir einyrkjunum til hliðar

En hvað með eftir hrun, má greina hrunáhrif á minjagripagerð? Hvort sem það eru bein hrunáhrif eða afleiðing af auknum fjölda ferðamanna þá hefur einyrkjum í minjagripagerð fækkað eftir hrun. Nú ber meira á fjöldaframleiðslu en áður.

Það er kannski það að fjöldaframleiðsla verður í raun miklu meir. Einyrkjar sem voru, og voru að að koma með sína hluti á handverkssýningar, það er svolítið farið að minnka og í staðinn er fjöldaframleiðslan farin að taka yfir.

Metnaðarfull framleiðsla inn á milli

Á þessu eru þó undantekningar, inn á milli eru fyrirtæki sem leggja metnað bæði í góða hönnun og að framleiðslan sé á Íslandi. Það var eitthvað um það eftir hrun að fólk sem hafði misst vinnuna í bönkum eða aðra vel launaða vinnu fór út í minjagripagerð. Guðrún nefndi dæmi um tvær konur, hvor með sitt fyrirtækið, sem lögðu út í metnaðarmikla fataframleiðslu og notuðu myndir úr íslenskri náttúru. Þar af norðurljósasokkabuxur en einnig kjólar sveipaðir ljósunum.

En aftur þetta, fjöldaframleiðslan er það sem ber mest á í minjagripaútgerðinni, það ber minna á einyrkjunum.

Það eru auðvitað alltaf einhverjir sem betur fer. En það hafa verið handverkssýningar og það hefur komið í ljós að einyrkjar eru ekki að eins stórum hluta þar og áður. Það er komið meira af fjöldaframleiddum hlutum.

Minjagripir ýta undir sköpun, í skrýtnum útgáfum

En hvað er svona áhugavert við minjagripi?

Það er bara svo merkilegt hvað fólk hefur ótrúlega mikið ímyndunarafl og hvað sköpunin er frjó. Eins og til dæmis er til jólaskraut þar sem lundi er í jólasveinabúningi og hann er með vagn og fyrir vagninum er ekki hreindýr heldur ísbjörn með hreindýrahorn svo það er búið að búa til nýtt dýr. Og hann er ekki með kerti og spil og sekknum sínum heldur er hann með síli handa lundapysjunum. Og þetta finnst mér bara svo áhugavert. Já, hvað fólk lætur sér detta í hug og bara framkvæmir það.

Fyndni er einn kaflinn í minjagripagerð

Fyndni á sér sinn sess í minjagripum, oft gert út á að búa til fyndna hluti.

Þeir eru oft mjög fyndnir, eiga að vera það og algjörlega ætlað að vera það. Það er kannski verið að leika með alls konar mýtur í minjagripum, eins og til dæmis Ísland best í heimi. Það er til dæmis hægt að kaupa íslenskt fjallaloft á krukkum. Það sagði mér kona sem vinnur í lundabúð að það kæmu oft útlendingar og spyrðu um þetta, hvort þetta væri til af því þeim finndist þetta svo fyndið.

Hvort lundinn eða dýr samsett úr ólíkum dýrategundum lýsir betur ímynd Íslands skal ósagt látið. En minjagripaframleiðslan blómstrar, margt af því framleitt í fjarlægum löndum frekar en á Íslandi. Kafli í hnattvæðingarsögunni sem átti líka sinn þátt í uppsveiflunni eftir hrun, þökk sé vinsældum Íslands sem ferðamannalands.