Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Þjóðarskútan, bronsöldin og fjármálamarkaðir

Mynd:  / 

Þjóðarskútan, bronsöldin og fjármálamarkaðir

23.03.2018 - 15:57

Höfundar

Rannsóknir á hrunum á bronsöld og stofnun fjármálamarkaða í Evrópu leika stórt hlutverk í öðrum þætti hugmyndasögu fullveldisins sem fjallar um skipsbrot þjóðarskútunnar árið 2008.

Í öðrum þætti um hugmyndasögu fullveldisins, „Hundrað ár, dagur ei meir“, ræðir Marteinn Sindri Jónsson við þau Ásgeir Brynjar Torfason og Kristrúnu Heimisdóttur um aðdraganda þess að Íslendingar settu neyðarlög 6. október 2008 til að bjarga innistæðum í íslenskum bönkum sem þá riðuðu til falls.

Í undirbúningi þáttarins ræddi Marteinn við fjóra sérfræðinga í hrunum. Þetta eru þau Dr. Linda Hulin, fornleifafræðingur við Oxford háskóla og Dr. Simon Stoddart við háskólann í Cambridge en þau eru bæði sérfræðingar í hruni bronsaldar. Einnig ræddi hann við þær Dr. Helen Paul við Southampton háskóla og Anne Murphy, sagnfræðing við Hertfordshire háskóla.

Farartæki þáttarins verða skip og akkeri er kastað úti fyrir nokkrum afdrifaríkum viðburðum í sögu hruna og fjármálamarkaða sem allir tengjast skipum.

Á bronsöld stóðu konungsdæmi fyrir botni Miðjarðarhafs fyrir mikilli  verslun með brons og önnur verðmæti sem fundist hafa um borð í skipsflökum á svæðinu. Bronsöld lauk um 1200 fyrir Krist með miklu hruni sem fólst ekki síst í því að þau stjórnmálakerfi sem voru til staðar - miðstýrð einveldi konunga urðu svipur hjá sjón eða hurfu með öllu.

Á 17. og 18. öld verða fjármálamarkaðir til í tengslum við skipaferðir Evrópubúa til nýlendna sinna. Hlutafélög eru stofnuð til að fjármagna skipaferðir og kauphallir rísa til að halda utan um viðskipti með hlutabréf. Snemma á 17. öld myndast bóla á hollenskum fjármálamarkaði í tengslum við innflutning á túlípönum og snemma á 18. öld hrynur breskur fjármálamarkaður vegna viðskipta félags sem kennt er við Suðurhöf og hélt uppi siglingum til Suður-Ameríku en sá fyrst og fremst um umsýslu ríkisskuldabréfa. Þeir atburðir eru gjarnan nefndir Suðurhafsbólan.

Mögulega veita þessir atburðir einhverja innsýn inn í þá þróun sem lauk með hruni íslensku bankanna árið 2008 sem kastaði þjóðarskútunni svo hressilega til að Íslendingar nýttu sér fullveldisrétt sinn með setningu neyðarlaganna svokölluðu. Tekin var ákvörðun um að leggjast á eitt um að róa íslenskri þjóðarskútu úr hringiðu hamfaranna og láta erlenda aðila reka á reiðanum. En hvort við höfum öll verið á sama báti síðan er annað mál og svo er spurning hvort hamfarir séu yfirhöfuð rétta orðið. Það gefur nefnilega í skyn að orsakanna sé ekki að leita um borð í skipinu.