Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Þjóðaratkvæði óraunsæ krafa

03.03.2014 - 20:15
Mynd með færslu
 Mynd:
Fjármálaráðherra segir það óraunsæja kröfu að Íslendingar greiði þjóðaratkvæði um áframhaldandi aðildarviðræður við Evrópusambandið þar sem það sé ekki á dagskrá Alþingis. Hann segir þó nauðsynlegt að finna út hvernig þjóðin geti átt aðkomu að ákvörðunum.

Ráðherrar ríkisstórnarinnar funduðu í morgun um stöðuna í Evrópumálunum. Þar var skipst á skoðunum um hvað mætti helst læra af því ferli sem fór af stað frá því að tillaga utanríkisráðherra um slit á viðræðum kom fram.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, segir að hann heyri ekki mikla kröfu um að Ísland gagni í ESB. Hann heyri hins vegar mjög háværa kröfu um aðkomu að ákvörðunum og sér finnist þurfa að ræða það í þinginu. Það vilji stjórnin skoða með opnum hug og það sé ágætis tónn í samræðunni en ekki sé búið að taka ákvörðun um eitt né neitt.

Bjarni segir að það sé mjög ríkur stuðningur innan ríkisstjórnarinnar við tillögu utanríkisráðherra. Það sé skiljanlegt að fólk vilji koma að slíkum ákvörðunum og hann hafi sannarlega opnað á þann möguleika. Hann hafi hins vegar ávalt verið þeirrar skoðunar að það sé hæpið, og í þessu tilviki óraunsætt, að efna til atkvæðagreiðslu um hluti sem séu ekki á dagskrá þingsins. Það sé til dæmis ekki á dagskrá Alþingis, sannarlega ekki frá stjórnarmeirihlutanum, að ganga í ESB eða halda viðræðunum áfram. Engu að síður birtist krafa um að það verði gert. Það sé miklum vandkvæðum bundið.

Bjarni segir það tvennt ólíkt að almenningur taki þátt í ákvörðunum Alþingis og setji mál á dagskrá sem ekki séu til umræðu. Ljóst sé ekki er  meirihluti fyrir inngöngu í ESB á Alþingi og þar af leiðandi enginn tilgangur með þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Sama hver niðurstaðan yrði myndi hún ekki leiða til árangurs í aðildarviðræðum. Það sé eitthvað sem margir eigi mjög erfitt með að sætta sig við og hann heyri fussað og sveiað þegar á það sé bent, en þetta sé engu að síður staðreynd.

Þingflokkarnir funduðu á Alþingi í dag. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra veitti fréttasofu ekki viðtal en hann verður í Kastljósi annað kvöld.