Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Þjóð meðal þjóða í listum og bókmenntum

Mynd: RÚV / RÚV

Þjóð meðal þjóða í listum og bókmenntum

18.10.2018 - 15:49

Höfundar

„Íslendingar þurftu að sannfæra heiminn um að þeir væru menningarþjóð og berjast við almenningsálitið í baráttu sinni fyrir að verða sjálfstæð og fullvalda þjóð,“ segir Sigrún Alba Sigurðardóttir sýningarstjóri Lífsblómsins, sýningar í Listasafni Íslands sem sett er upp í tilefni 100 ára afmælis fullveldis. Þar takast 30 íslenskir listamenn á við fullveldishugmyndina auk þess sem handrit tengd þessum hluta Íslandssögunnar eru til sýnis.

Titillinn er sóttur í skáldsögu Halldórs Laxness, Sjálfstætt fólk, og gegnum sýninguna liggur þráður gildis og þýðingar fullveldis fyrir íslensku þjóðina. Auk Listasafns Íslands standa að sýningunni Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Þjóðskjalasafns Íslands. Sýningin er sett upp að undirlagi Afmælisnefndar aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands. 

Að sögn Sigrúnar Ölbu var markmið verkefnisins að bjóða upp á samtal við fortíðina og fjalla um ólíkar hliðar fullveldisins. „Okkur fannst mjög mikilvægt í upphafi að fjalla um fullveldið sem lifandi fyrirbæri, ekki eitthvað sem tilheyrir bara fortíðinni heldur mikilvægan hlut sem er grunnstoð í því hvernig við förum að því að búa saman í samfélagi og varðar ýmsa þætti sem er tekist á um í dag og var líka tekist á um fyrir 100 árum. Til dæmis mál er varða auðlindir þjóðarinnar, hverjir hafa þegnrétt á Íslandi og spurningar sem varða lýðræði og sjálfsákvörðunarrétt, hverjir taka þátt í að móta samfélagið, hverjir eru valdhafarnir og hvert er hlutverk almennings,“ segir hún. „Þetta eru mál sem var tekist á um þegar fullveldinu var komið á fyrir 100 árum og er ennþá tekist á um og um það fjöllum við með ýmsum hætti. Með skjölum og sögulegum heimildum en einnig með listaverkum og þar leikur listin dálítið stórt hlutverk í því að spyrja aðkallandi spurninga um ábyrgð Íslands sem fullvalda þjóðar og sjálfsmyndina og slíkt. Og svo eru handritin sem eru líka svolítið svona kjarni í sjálfsmynd þjóðarinnar.“

Verk á sýningunni eiga listamenn sem hafa á einn eða annan hátt fengist við spurningar sem snerta fullveldi Íslands. Þar á meðal eru Pétur Thomsen, Sigríður Zoëga, Birgir Andrésson, Oddný Eir Ævarsdóttir, Muggur, Heiða Helgadóttir, Þórarinn B. Þorláksson og Ólöf Nordal. 

Láta til okkar taka

Sýningin hlýtur gildisauka þann 19. október, á afmæli fullveldisþjóðaratkvæðagreiðslu. „19. október 1918 var stórmerkilegur dagur, þá komu tvö erlend skip og lögðust að höfn í Reykjavík og talið er að þessi skip hafi flutt með sér vírusinn eða bakteríuna sem olli spænsku veikinni. 19. október gengu Íslendingar líka til þjóðaratkvæðagreiðslu og kusu um sambandslagasamninginn við Danmörku. Þeir kusu um það hvort þeir vildu verða fullvalda þjóð og það er margt mjög áhugavert við þessa þjóðaratkvæðagreiðslu. Í fyrsta lagi var verið að spyrja þjóðina hvað hún vildi, en þjóðin tók ekkert svo vel í að vera spurð. Það var aðeins 43% kosningaþátttaka, það er eins og sumir hafi ekki treyst sér til að kjósa. Og sumir kusu á móti samningnum, það var ekkert einhliða að allir vildu eða treystu Íslandi til að verða fullvalda þjóð. Tækifæri til að vera þjóð meðal þjóða og láta til okkar taka, því fylgir líka ábyrgð í svona alþjóðlegu samhengi,“ segir Sigrún Alba. 

Nánari upplýsingar um Lífsblómið má finna hér