Þjálfari KA dæmdur í leikbann

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Þjálfari KA dæmdur í leikbann

26.02.2020 - 08:31
Jónatan Þór Magnússon þjálfari karlaliðs KA í handbolta var í gær dæmdur í eins leiks bann. Í dómi aganefndar HSÍ segir að bannið komi til vegna óíþróttamannslegrar hegðunar eftir leik KA og Fram á laugardaginn.

Fram vann leikinn 21-20 eftir að KA hafði verið tveimur mörkum yfir, 20-18 þegar skammt var eftir. Fram skoraði hins vegar síðustu þrjú mörk leiksins. KA átti þó raunar lokasóknina en hún gekk ekki upp fyrir KA menn og Fram vann því leikinn. 

KA er í 10. sæti Olís-deildarinnar þegar þrjár umferðir eru eftir. Ljóst er að KA getur ekki lengur unnið sér inn sæti í úrslitakeppni Íslandsmótsins. KA-menn eru hins vegar ekki alveg lausir við falldrauginn. Tölfræðilega getur liðið ennþá fallið. Staðan er þó fín, því KA hefur 11 stig en HK sem er sæti neðar er aðeins með 6 stig þegar þrjár umferðir eru eftir í deildinni.

Jóntan mun taka út leikbannið þegar KA sækir FH heim í Kaplakrika 11. mars. Þar sem KA menn hafa tvo aðalþjálfara, ætti fjarvera Jónatans því ekki að koma að meiri sök en svo að Stefán Árnason, hinn aðalþjálfari liðsins verður á sínum stað í liðsstjórn KA í leiknum á móti FH.