Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Þingsályktun sé ekki bindandi

13.03.2015 - 12:38
Mynd: RÚV / RÚV
Þingsályktun frá 2009 skuldbindur ekki sitjandi ríkisstjórn segir Björg Thorarensen lagaprófessor. Hún segir mjög sérstakt að ríkisstjórnin hafi ekki haft samráð við utanríkismálanefnd um að tilkynna ætti Evrópusambandinu að Ísland sæktist ekki lengur eftir aðild.

 „Raunverulega er þingsályktunin frá 2009 lýsing um tiltekna viljaafstöðu þingsins, að fela ríkisstjónr sem að þá situr að hefja aðilarviðræður við ESB. Það er öllum ljóst hvað hefur gerst eftir að stjórnarskipti urðu. Þeirri þingsályktun hefur ekki verið fylgt lengur. Hún hefur ekki lagalega skuldbindandi gildi sem fyrirmæli gagnvart sitjandi ríkisstjórn. En að Alþingi vildi árétta þá afstöðu sem kemur fram í þessari þingsályktun eða taka af skarið um skyldur ríkisstjórnar í þeim efnum þá myndi Alþingi einfaldlega álykta aftur um að ríkisstjórnin myndi þá fylgja þessari þingsályktun. En það hefur ekki gerst og ef að Alþingi er ekki sátt við það hvernig ríkisstjórnin og utanríkisráðherra vinna sín verkefni, þá er þetta úrræði að víkja ríkisstjórninni frá völdum eða samþykkja vantraust á hana eða ráðherra,“ segir Björg.

Ríkisstjórnin bar ákvörðun sína, um að tilkynna Evrópusambandinu að Ísland sæktist ekki lengur eftir aðild, ekki undir utanríkismálanefnd alþingis. Það er mjög sérstakt að mati Bjargar Thorarensen lagaprófessors. Gagnvart Evrópusambandinu verði samt að líta svo á að ráðherrann sé bær til að taka ákvörðun af þessu tagi. „Hins vegar er mjög sérstakt að mínu mati að í jafn mikilvægu máli þar sem utanríkismál sem varða landið mjög miklu eru undir, meirháttar utanríkismál, að það sé ekki haft beint samráð um þessa ákvörðun. Og það gengur eiginlega þvert á þá þróun sem hefur verið á síðustu árum, meðal annars með breytingu á þingskaparlögum, nema þessu ákvæði með utanríkismálanefnd, að það er alltaf verið að auka úrræði þingsins nema að minnihlutinn fær þá líka kost á því að koma fram sínum sjónarmiðum,“ segir Björg.