Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Þingnefnd ber að þegja um nöfn í Downey-málinu

10.08.2017 - 12:13
Mynd með færslu
 Mynd: Hilmar Kári Hallbjörnsson - RÚV
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis verður ekki heimilt að gefa upp hverjir það voru sem veittu Robert Downey, áður Róberti Árna Hreiðarssyni, meðmæli þegar honum var veitt uppreist æru. Nefndin hefur verið boðuð til fundar á mánudaginn til að ræða reglur um uppreist æru.

„Nefndarmönnum verður bannað að gefa upp nöfn á meðmælendum, enda eru gögnin trúnaðarmál,“ segir Brynjar Níelsson, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. „Einstaka nefndarmaður óskaði eftir umsagnarbréfum um þetta tiltekna mál og við því var orðið. Ekki það að ég skilji hvers vegna áhugi sé á að fá upplýsingar um þessi nöfn. Umfjöllun nefndarinnar snýst ekki um þetta mál, eða þessa menn, heldur hvort breyta þurfi lögum um uppreist æru eða hvort ráðherra hafi farið að lögum,“ segir Brynjar.

Brynjar leggur fyrir nefndina upplýsingar frá dómsmálaráðuneytinu um fjölda þeirra sem fengið hafa uppreist æru auk gagna í máli Robert Downey. Í gögnunum er meðal annars að finna meðmælabréf þeirra tveggja sem gáfu Roberti Downey meðmæli þegar honum var veitt uppreist æru svo hann gæti fengið lögmannsréttindi sín aftur, og nöfn meðmælendanna. 

Brynjar sagði í samtali við fréttastofu í gær að hann muni ekki afhenda nefndarmönnum öll gögnin. „Meðmælendabréfin fá þeir ekki,“ sagði Brynjar, ráðuneytið hafi afhent  þessi gögn sem algjört trúnaðarmál. Brynjar tekur þó skýrt fram að nefndarmennirnir fái að sjá þau á fundinum. 

Héraðsdómur Reykjaness hafnaði í byrjun júlí beiðni fréttastofu RÚV um aðgang að gögnum er vörðuðu mál Roberts. Áður hafði dómsmálaráðuneytið hafnað beiðni RÚV.

Enginn grunur um að ráðherra hafi brotið lög

Aðspurður segir hann að enginn grunur sé um að ráðherra hafi ekki farið að lögum. Hlutverk nefndarinnar sé hins vegar að skoða það út frá gögnum málsins og því hafi verið óskað eftir því. Einnig beri nefndinni að skoða hvort breyta þurfi lögum. 

Dómsmálaráðherra, Sigríður Á. Andersen hefur sagði í samtali við RÚV í júní að hún telji að breyta þurfi lögum um uppreist æru. Munu ummæli ráðherra hafa áhrif á störf nefndarinnar? „Hún hefur sjálf talað um að það sé í skoðun, sem er hið besta mál. Fyrst þurfum við hins vegar að fá upplýsingar um hvernig þetta ferli hefur verið og hvers vegna það sé svona. Þær upplýsingar liggja nú fyrir og farið var í gegnum það á síðasta fundi nefnarinnar. Nú förum við yfir upplýsingar um fjölda mála síðasta áratug til upplýsingar um hvernig framkvæmdin er á þessu,“ segir Brynjar.

Spurður hvort líkur sé á því að almenningi verði veittur aðgangur að upplýsingunum segir Brynjar: „Tölfræðin er ekki trúnaðarmál. Það sem er raunverulegt trúnaðarmál er innihald umsagnarbréfanna. Ég er ekki búinn að skoða þau en í þeim eru oft persónulegar upplýsingar.“

Robert var dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn fjórum ungum stúlkum. Faðir einnar þeirra, Bergur Þór Ingólfsson hefur gagnrýnt ákvörðunina um að veita Roberti uppreist æru og hefur ítrekað óskað eftir upplýsingum um hverjir meðmælendurnir væru.