Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Þingmenn minnast Halldórs Ásgrímssonar

19.05.2015 - 16:44
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Forseti Alþingis minntist Halldórs Ásgrímssonar við upphaf þingfundar á Alþingi í dag og fór yfir lífshlaup hans. Að því loknu risu þingmenn úr sætum sínum og vottuðu honum virðingu sína. Það hafa þingmenn og ráðherrar einnig gert á Facebook í dag.

Í ræðu sinni sagði Einar meðal annars: „Halldór Ásgrímsson aflaði sér þegar á fyrstu þingmannsárum sínum mikils trausts, ekki aðeins meðal flokksmanna sinna, heldur langt út fyrir raðir þeirra. Hann hafði yfirgripsmikla þekkingu á efnahags- og atvinnumálum og þótti stefnufastur stjórnmálamaður og var stundum líkt við klett í hafi.“

Sagði Einar jafnframt að jafnan hafi verið stutt í glensið hjá Halldóri, þrátt fyrir að hann hafi verið alvörugefinn. Sagði hann að við hið óvænta og ótímabæra fráfalls Halldórs, sæi þjóðin að baki einum helsta stjórnmálaforingja sínum um áratugaskeið. 

Þá minntist Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðhera, Halldórs með kveðju á heimasíðu forsætisráðuneytisins. Segir Sigmundir að Halldór hafi verið réttsýnn, velviljaður og vinnusamur maður sem bæði vinir og vinnufélagar treystu á. Hann hafi verið sanngjarn og úrræðagóður í opinberum störfum og klettur í ólgusjó stjórnmálanna. Hann hafi sannarlega verið einn áhrifamesti stjórnmálamaður lýðveldistímans.

Minntust Halldórs á Facebook

Utanríkisráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson, segir að fátt hafi Halldóri verið óviðkomandi. Þannig hafi hann flutt frumvarp um bætta stöðu ljósmæðra strax á sínu fyrsta þingi.

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, segist hafa notið þeirra forréttindi að vinna fyrir Halldór, bæði sem ráðgjafi og sem embættismaður. 

Katrín Júlíusdóttir segir að Halldór hafi tekið vel á móti sér þegar hún var í þingi á fyrsta sinn, en hann komst fyrst á þing sama ár og hún fæddist. 

Karl Garðarsson segir að Halldór hafi alltaf verið ráðagóður og tilbúinn að hlusta.

Fleiri kveðjur frá þingmönnum má sjá hér að neðan.

Rögnvaldur Már Helgason
Fréttastofa RÚV