Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Þingmenn geti ekki leyft sér þessar skoðanir

27.01.2019 - 12:05
Henry Alexander Henrysson, aðjúnkt við sagnfræði- og heimspekideild HÍ. - Mynd:  / 
Þingmenn Miðflokksins, þeir Gunnar Bragi Sveinsson og Bergþór Ólason, sem í vikunni tóku sæti á Alþingi á ný eftir Klausturmálið, hafa tapað trúverðugleika sínum, að mati Henrys Alexanders Henryssonar aðjúnkts við sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands. Hann segir að ástæðurnar sem þeir gáfu fyrir endurkomu sinni séu eftirtektarverðar; að þeir hafi enn trúverðugleika kjósenda sinna. Þá geti þeir ekki leyft sér að hafa þær skoðanir sem komu fram í spjalli þeirra á barnum.

„Þetta eru svona grundvallarspurningar um lýðræði, þurfa þingmenn bara að vera trúverðugir í augum sinna kjósenda og sinna vina eða þurfa þeir að vera trúverðugir í augum almennings? Og ég held að í þessu tilviki, þessir tveir þingmenn, af því að þeir eru búnir að vera í fréttum, ég held að þeir hafi tapað sínum trúverðugleika, það er ekkert hægt að komast fram hjá því, ég held að við séum öll sammála því. Þeir fá hann ekkert auðveldlega aftur. Ég held að þeir séu ekki að öðlast hann aftur með sínum viðbrögðum í vikunni,“ sagði Henry í Silfrinu í morgun. 

Telur að þingmennirnir verði eins og rekaviðardrumbar 

Hann kveðst efast um að þingmennirnir hafi spurt sig þeirrar spurningar hvort þeir eigi að sitja áfram á þingi. „Ég held að þeir hafi tapað sínum trúverðugleika, að þeir verði dálítið eins og, ef þeir ætla að sitja inni á Alþingi, þá verða þeir eins og einhverjir rekaviðardrumbar sem svona skolast til þarna í öldurótinu núna næstu ár.“

Greinir skilningsleysi í viðbrögðum

Bergþór Ólason sagði í viðtali í Kastljósi í vikunni að tal þingmannanna á barnum Klaustri hefði verið raus drukkins fólks og ekki sært neinn fyrr en upptökurnar voru birtar. Þessu er Henry ekki sammála. „Það er lykilatriði í þessu, og ég held að það bara megi ekki gleymast, að kjörnir fulltrúar geta ekki hafa þessar skoðanir. Þeir geta ekki leyft sér þetta. Þetta er bara ekki í boði hvort sem þetta hefði farið út eða ekki.“ Hann telur að þingmennirnir hafi ekki skilning á þeirri stöðu sem þeir eru í sem kjörnir fulltrúar. „Þetta skilningsleysi sem kemur svo í ljós í viðbrögðum þeirra. Það er það sem ég hef áhyggjur af í þessu, að þeir skuli ekki hafa gert sér grein fyrir því við sögurnar og #metoo-byltinguna að menn gái ekki að sér og noti ekki tækifærið til að breyta viðhorfum sínum og hugsa í hvaða stöðu þeir eru.“

Mikilvægt að leysa úr Klausturmálinu

Henry telur að það skipti miklu máli hvernig leyst verður úr Klausturmálinu. Hafa verði í huga að ekki hafi verið vel staðið að gerð siðareglna Alþingismanna á sínum tíma. Þær hafi verið þýddar erlendis frá og það hafi verið lítil umræða um þær, hvernig þær eigi að virka og fyrir hverja þær séu. Staðan sem nú er uppi séu byrjunarörðugleikar. „Ég held að það sé mikilvægt að þetta fari til siðanefndar og að Alþingi reyni að bregðast við þessu máli.“