Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Þingmaður krefst rannsóknar

11.01.2011 - 19:26
Mynd með færslu
 Mynd:
Þýskur þingmaður krefst þess að rannsakað verði hvort þýsk lögregluyfirvöld hafi vitað af því þegar breskur lögreglumaður tók þátt í umhverfismótmælum þar í landi. Lögreglumaðurinn var flugumaður hjá aðgerðasinnum í sjö ár þar til hann var afhjúpaður í fyrra. Hann tók þátt í mótmælum á Íslandi vegna Kárahnjúkavirkjunar 2005.

Mark Stone, réttu nafni Mark Kennedy, var lögreglumaður sem var falið að lauma sér inn í hópa aðgerðarsinna. Hann átti að komast að mótmælaáformum þeirra og leka þeim í félaga sína í lögreglunni. Greint var frá afhjúpun hans í breskum fjölmiðlum í gær. Þar kom fram að hann hefði tekið þátt í mótmælum víða um heim, þar á meðal á Íslandi. Saving Iceland staðfesti við fréttastofu að Kennedy hefði komið til Íslands sumarið 2005 undir eftirnafninu Stone og tekið þátt í mótmælum gegn Alcoa og Kárahnjúkavirkjun. Fjallað var ítarlega um Mark Kennedy í fréttaskýringaþættinum Newsnight á BBC í gærkvöldi og hafa spurningar vaknað um aðferðir lögreglunnar við eftirlit með mótmælahópum.


Deilan um Kennedy hefur náð inn á þýska þingið. Andrej Hunko, þingmaður í Vinstriflokknum, lagði fyrir áramót fyrirspurn fyrir þýska þingið um samstarf þýskra lögreglumanna og erlendra leynilögreglumann, þar á meðal Kennedys. Ekkert svar fékkst við henni og hefur Hunko því í dag sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann krefst þess að þingið kanni hvort þýsk lögregluyfirvöld hafi vitað um Kennedy sem hann segir að hafi skipulegt aðgerðir þýskra mótmælenda á G20 og G8 fundum. Hunko spyr hvort þýsk yfirvöld hafi gefið honum leyfi til að starfa í Þýskalandi.


Fréttastofa hefur sent fyrirspurn til Ríkislögreglustjóra um hvort íslensk lögregluyfirvöld hafi vitað af Kennedy þegar hann var hér á landi. Ekkert svar hefur borist.