Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Þingmaður hótar að draga kjararáð fyrir dóm

08.11.2016 - 07:37
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, segir að ef kjararáð, forseti Íslands eða formenn allra stjórnmálaflokka vindi ekki ofan af úrskurði um launahækkun kjörinna fulltrúa, muni hann kæra úrskurðinn til dómstóla. Hann hafi þegar fengið til þess lögfræðing.

Þetta kemur fram í aðsendri grein þingmannsins í Fréttablaðinu í morgun. Þar segir Jón Þór að þrír aðilar geti „aftengt sprengjuna,“ eins og hann kallar úrskurð kjararáðs.

Hann segir að kjararáð geti gefið út annan úrskurð sem lækki laun ráðherra og þingmanna en þingmaðurinn segir að stjórnarskráin komi í veg fyrir að hægt sé að lækka laun forsetans.  Þá geti forseti Íslands gefið það út að hann muni setja bráðabirgðalög áður en þing kemur saman.  

Og svo sé það þriðji möguleikinn - að forsetinn fái það staðfest frá formönnum allra stjórnmálaflokka að þeir muni vinda ofan af þessum úrskurði. „Ef þessir þrír aðilar bregðast allir mun ég kæra ákvörðun kjararáðs til dómstóla og hef nú þegar fengið til þess lögfræðings.“

Samkvæmt úrskurði kjararáðs hækka laun forsætisráðherra og laun forseta um meira en hálfa milljón á mánuði.  Þingmenn geta mest fengið greiddar rúmar tvær milljónir en laun þeirra eru nú ellefu hundruð þúsund. 

Ákvörðun kjararáðs hefur verið gagnrýnd mjög, meðal annars af ASÍ og SA en einnig af Félagi grunnskólakennara. Þá hefur Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, afþakkaði launahækkunina og ætlar að láta hana renna til góðgerðarmála. 

Mynd: RUV / RUV
freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV