Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Þingmaður greinist með COVID-19

22.03.2020 - 23:47
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Smári McCarthy, þingmaður Pírata, greindist um helgina með COVID-19 veirusýkingu. Smári greinir frá þessu á Facebooksíðu sinni. Þar segir hann frá því, að hann hafi farið í sjálfskipaða sóttkví fyrir rúmri viku, þegar hann fékk hósta. Sýni var svo tekið á föstudag og á laugardag var staðfest að hann hafði smitast af COVID-19.

Smári segist vera þokkalega hress, einkennin hafi verið mjög væg og hitinn aldrei orðið mikill. Þá er hann að mestu laus við hóstann. „Önnur einkenni koma og fara - en ég er í stuttu máli ótrúlega heppinn með hvað þetta virðist vægt,“ skrifar Smári, sem nú er kominn í tveggja vikna einangrun og hyggst sinna þingstörfum eftir því sem hann getur í gegnum síma og fjarfundabúnað. Smári segist ekki vita hvernig eða hvar hann smitaðist.

Telur litlar líkur á að hann hafi smitað aðra þingmenn

Aðgerðir sem gripið hefur verið til á Alþingi til að halda fólki í hæfilegri fjarlægð hverju frá öðru, segir Smári, ættu að forða því að hans smit hafi teljandi áhrif á störf þingsins.

Í færslunni hrósar Smári heilsugæslunni í Miðbæ, smitrakningarteymi Almannavarna og lækninum sem tilkynnti honum niðurstöðu sýnagreiningarinnar. „Þau öll, ásamt öllum öðrum í heilbrigðiskerfinu, eru að vinna þrekvirki þessa dagana,“ skrifar þingmaðurinn, og hvetur fólk til að standa saman og fylgja reglunum, til að draga úr smiti.
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV