Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Þingmaður ætlaði að kaupa verkin og kæra

24.09.2014 - 12:20
Mynd með færslu
 Mynd:
Uppboðshúsið Bruun Rasmussen hafði vitneskju um að tvö íslensk málverk sem til stóð að bjóða upp væru fölsuð. Þetta fullyrðir Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður. Safnstjóri Listasafnsins segir nöfn íslensku meistaranna í hættu.

Danska lögreglan lagði í gærmorgun hald á tvö málverk, sem sögð voru eftir Svavar Guðnason, vegna gruns um að þau væru fölsuð. Til stóð að bjóða málverkin upp hjá uppboðshúsinu Bruun Rasmussen í Kaupmannahöfn í gær. Forvörður hjá Listasafni Íslands hafði áður kært uppboðið til embættis sérstaks saksóknara.

Halldór Björn Runólfsson, safnstjóri Listasafns Íslands, segir það afar slæmt fyrir íslenska myndlist að svona mál skuli koma reglulega upp. „Og ekki hvað síst listamennirnir sem lenda í þessu, sem sumir hverjir og flestir eru látnir, og geta ekki borið hönd fyrir höfuð sér, Svavar Guðnason og aðrir frábærir listamenn, nafn þeirra gæti verið í virkilegri hættu,“ segir Halldór.

Halldór Björn segir augljóst að verkin sem hald var lagt á í gær séu lélegar falsanir. „Þetta er angi af mjög gömlu máli sem er að koma aftur upp á yfirborðið. Þetta sýnir og sannar það sem við héldum alltaf fram, að það þýddi ekki að gefa fölsurunum lausan tauminn. Það yrði að uppræta verkin, bara hreint og beint að taka þau í vörslu lögreglunnar. Halldór Björn segir að málið sé augljóslega tengt stóra málverkafölsunarmálinu.

Vilhjálmur Bjarnason alþingismaður bar fram þingsályktunartillögu á síðasta þingi, þess efnis að skipaður yrði starfshópur til að taka á málverkafölsunum. Vilhjálmur segist hafa vitað að verkin sem væru fölsuð en hann ætlaði samt að kaupa þau. „Ég ætlaði mér að verða aðili að málinu ef lögregluyfirvöld hefðu ekki gripið í taumana. Og með því að verða aðili að málinu eignast ég kærurétt og hefði getað fylgt málinu eftir í efnahagsbrotamáli,“ segir Vilhjálmur.

Hann segir að Bruun Rasmussen hefði getað komið í veg fyrir þetta. „Og mér er kunnugt um það að Bruun Rasmussen hafði vísbendingar um það áður að verkin væru fölsuð. Þannig að það var ósköp einfalt að leita þessara leiða.