Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Þingflokkur Viðreisnar fékk Bjarna á símafund

10.01.2017 - 08:08
Þingflokkur Viðreisnar 6. desember 2016.
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Þingflokkur Viðreisnar sat á maraþonfundi í gær þar sem skýrslumálið svokallaða var rætt í þaula. Flokkurinn fékk meðal annars Bjarna Benediktsson, verðandi forsætisráðherra, á símafund. Varaformaður Viðreisnar segir þingflokkinn hafi viljað velta við hverjum steini. Þingmaður segir flokkinn hafa ákveðið að leyfa Bjarna að njóta vafans.

Skýrsla um milljarðaeignir Íslendinga í aflandsfélögum var birt fyrir helgi. Hún var unnin fyrir Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra, sem fékk hana í hendur nokkrum vikum fyrir kosningar og hann hefur sætt  gagnrýni fyrir að skýrslan hafi ekki verið birt fyrr enda hafi hún átt erindi við almenning fyrir kosningar.

Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, sagði við ruv.is í gær að skýrslan og umræðan í kringum hana hefði vakið upp spurningar. Í Fréttablaðinu í morgun er vitnað í færslu sem Benedikt Jóhannesson skrifaði á Facebook-síðu flokksmanna þar sem hann segir þingflokkinn hafa heyrt frá Bjarna og „miðað við hans frásögn hafi verið um að ræða klaufaskap og slaka dómgreind en ásetning um feluleik.“

Þingflokkur Viðreisnar sat á maraþonfundi í gær þar sem skýrslumálið var rætt í þaula. Jóna Sólveig Elínardóttir er varaformaður Viðreisnar. „Þetta var eitthvað sem við töldum fulla ástæðu til að ræða ítarlega. Í okkar er þetta stórt mál sem við töldum rétt að staldra við og velta við hverjum steini.“

Málið var einnig tekið upp á fundi ráðgjafaráðs Viðreisnar í gærkvöld þar sem stjórnarsáttmáli Bjartrar framtíðar, Viðreisnar og Sjálfstæðisflokks var samþykktur. Jóna Sólveig segir að umræðurnar um þetta mál hafi verið hreinskiptar og opnar. En var þetta mál það stórt að það setti stjórnarsamstarfið í hættu? „Ég skal orða þetta þannig að við stoppuðum við þetta og ræddum það [þingflokkurinn]  í marga klukkutíma. Þetta var mál sem við þurftum að kafa vel ofan í og ræða mjög vel.“

Pawel Bartoszek, þingmaður Viðreisnar,segir að skýrslumálið hafi valdið þingflokknum miklu hugarangri og miklum áhyggjum. Flokkurinn hafi fengið Bjarna á símafund og rætt það við hann. „Ég mat þær skýringar sem hann gaf á þeim fundi að honum væri treystandi til að leiða næstu ríkisstjórn.“

Pawel neitar því ekki að sér finnist þetta mál ekki gott - það að Bjarni hafi ekki birt þessa skýrslu sé ekki gott heldur mjög slæmt. „Við myndum ekki vinna þessi mál með þessum hætti. En þegar allt var vegið að þá var það mitt mat að við ættum leyfa Bjarna að njóta vafans.“