Þéttari íbúðabyggð og styttra í vinnuna

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV

Þéttari íbúðabyggð og styttra í vinnuna

28.03.2017 - 17:38

Höfundar

Það felst bæði hagkvæmni og umhverfisvernd í því að þétta byggð, stytta vegalengdir og færa íbúana nær atvinnunni. Þetta segir skipulagsstjóri Akureyrarbæjar sem kynnti í dag nýtt aðalskipulag til ársins 2030. Þá er áætlað að Akureyringar verði orðnir 21 þúsund og þörf fyrir 100 íbúðir á ári.

Þétting byggðar, aukið framboð íbúðalóða á nýjum svæðum og frekari áhersla á miðbæinn, er meðal þess sem nú birtist í nýju aðalskipulagi Akureyrarbæjar 2018-2030. Bjarki Jóhannesson, sviðsstjóri skipulagssviðs, segir að þarna birtist vilji til að færa íbúana nær hver öðrum og nær störfum sínum. 

Styttri vegalengdir og minna byggt á óspilltu landi

„Með því getum við notað þá grunngerð sem við höfum, það er að segja vegi og götur og annað slíkt. Og það er mjög hagkvæmt bæði fyrir bæjarfélagið og fyrir íbúana, að stytta vegalengdir milli atvinnu og íbúða,“ segir Bragi. „Þetta er viðsnúningur, eldra skipulagið er frá 2005 og það hafa margar áherslur breyst síðan þá. Það kom nú ein kreppa þarna í millitíðinni og þá fóru menn aðeins að hugsa hlutina í öðru ljósi. Síðan eru umhverfismál sem hafa orðið mun meira í sviðsljósinu en áður. Þannig að við viljum kannski ekki fara eins mikið út á ónotað land eins og var áður hugsað,“ segir hann.

Íbúðir, þjónusta og verslanir á Akureyrarvelli

Í nýju aðalskipulagi er gert ráð fyrir að byggt verði á fjölmörgum svæðum í bæjarlandinu sem eru nýtt á annan hátt í dag. Akureyrarvöllur er þar á meðal. „Hann var skilgreindur sem blanda af íbúðar- og verslunarsvæði. Það er ekki leyfilegt lengur, í skipulagi, að hafa blandaða landnotkun. Þannig að við setjum þetta sem miðbæjarsvæði og þá er nokkuð frjálst hvað við byggjum þar. Það yrði hugsanlega íbúðir, þjónusta, verslanir og annað slíkt og síðan eru hugmyndir að nota svæðið í kringum stúkuna sem einhverskonar útivistarsvæði,“ segir Bjarki.  

Um 21.000 íbúar á Akureyri árið 2030

Í eldra aðalskipulagi var gert ráð fyrir að íbúum á Akureyri gæti fjölgað um allt að fimm prósent á ári. Bjarki segir að raunin sé hinsvegar fjölgun um rúmlega eitt prósent á ári frá 1998. „Og ef við reiknum þá fjölgun bara línulega áfram, þá fáum við út að Akureyringar verði um 21.000 árið 2030. Það þýðir að íbúðaþörfin er um það bil 100 íbúðir á ári, plús, mínus 10 kannsi.“

Fólk meira vart við framkvæmdir inni í bænum

Það eru þegar farnar að sjást framkvæmdir við þéttingu byggðar á Akureyri og verktakar farnir að byggja á lóðum inni í bænum. Bjarki segir að nú verði meira um slíkt þegar farið er að vinna eftir nýju skipulagi. „Kannski verður það meira dreift um bæinn, hingað til hefur þetta verið á Drottningarbrautarreitnum í miðbænum. En það eru reitir víðar. Við erum að hugsa um Kotárborgirnar, að þar megi byggja. Síðan erum við að hugsa um að megi nýta verslunar- og þjónustusvæði og gera íbúðir á efri hæðum. Við erum að hugsa um svæði sem er út með Krossanesbrautinni, einnig um svæði úti í Glerárþorpi í kringum íþróttavellina þar og fleiri og fleiri svæði,“ segir hann.

Reyna að forðast hagsveiflur á skipulagstímanum 

Og Bjarki segist bjartsýnn á að áætlun um 100 íbúðir á ári gangi eftir og slík uppbygging muni eiga sér stað. „Verktakarnir vilja náttúrulega meira, en við erum að reyna að halda þessu jöfnu og forðast hagsveiflur. Að við séum ekki að byggja of mikið í uppsveiflu og svo detti allt niður þegar kemur kreppa. Heldur að reyna að jafna þessu út yfir skipulagstímabilið. Og við teljum að þetta séu nokkuð raunhæfar tölur,“ segir Bjarki. 

Aðalskipulagið er enn í vinnslu, en drög að því eru aðgengileg á vef Akureyrarbæjar. Frestur til að koma með ábendingar og athugasemdir rennur út fimmtudaginn 20. apríl.