Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

„Þetta var ströggl, vesen og leiðindi“

04.10.2018 - 13:24
Mynd: Fréttir / Fréttir
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, segir tímann sem fylgdi í kjölfar efnahagshrunsins hafa verið ömurlegan og einkennst af „ströggli, veseni og leiðindum.“ Hann var einn af gestum Kastljóss í gær í sérstökum þætti sem tileinkaður var því að tíu ár eru liðin frá efnahagshruninu.

 „Það festast svona ákveðin augnablik í lífi manns og ég man stuttu síðar, svona ári eða svo síðar, þá vorum við bæði búin að missa vinnuna eða ég var svona við það. Ég vissi að Háskólinn í Reykjavík, eins ágætur og hann var, gæti ekki veitt sér þann munað endalaust að hafa sagnfræðing á launum eftir hrun og maður hugsaði með sér: Hér er maður ný orðinn fertugur og hver verður framtíðin? Búinn að kaupa lítið hús og þetta var ströggl og vesen og leiðindi. Þetta voru ömurlegir tímar. “

Ýmsan lærdóm megi draga af hruninu.

„Ég held við höfum lært hvert fyrir sig að sígandi lukka er best og kannski höfum við líka lært að það var feigðarflan að ætla sér að búa hér til eitthvert fjármálaveldi á svipstundu. Kannski líka, án þess að ætlast að gera hér einhver siðapostuli, að dramb er falli næst. En ég ætla ekki hér að tala bara i málsháttum.“

Við hrunið hafi orðið rof í samfélagssáttmála þar sem traust almennings til stjórnvalda og stofnana hafi glatast. Heilbrigð gagnrýni á stjórnvöld sé af hinu góða en mikilvægt sé að endurvinna traustið, sem sé gert með þolinmæði og þrautseigju. 

„Samfélag er daglegur sáttmáli um að lifa saman í sátt og samlyndi í blíðu og stríðu þar sem sömu lög gilda fyrir alla og þar sem fólk hjálpast að þegar á þarf að halda. Það varð rof í þessum samfélagssáttmála og kannski aðeins eins og samband þar sem einhver trúnaðarbrestur verður. Það tekur tíma að komast yfir þannig áfall en það er hægt ef viljinn er fyrir hendi.“

„Það gerum við með þolinmæði, þrautseigju og með því að fólk finni, treysti og sjái í verki að hér búum við öll við sömu réttindi og skyldur og að það sé ekki þannig í pottinn búið að einhverjir hafi í krafti fjármagns, aðstöðu og einhverra forréttinda miklu betra en aðrir. En þetta er ekki nokkuð sem ég get verið að predika hér um en þetta snýst um traust og hvernig það endurvinnst. “

-Er nokkuð að því að þjóðin sé gagnrýnin og treysti ekki ráðamönnum í blindni?

„Það má ekki vera blind hlýðni og heilbrigð gagnrýni er af hinu góða en traust á stofnunum og ferlinu og samfélagssáttmálanum það þarf að vera fyrir hendi og við þurfum að vinna það aftur, “ segir Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV