„Þetta var ekki góður tími tískulega séð“

Mynd: Unga Ísland / RÚV

„Þetta var ekki góður tími tískulega séð“

22.02.2018 - 13:30

Höfundar

„Maður fór ekki út úr herberginu á morgnana áður en maður var búinn að túpera toppinn,“ segir Ingunn Snædal, rithöfundur um upplifun sína af tísku níunda áratugarins, sem hún telur, eftir á að hyggja, hafi ekki verið sérstaklega góð.

Þjóðþekktir Íslendingar segja frá unglingsárum sínum í heimildaþáttunum Unga Ísland sem eru á dagskrá á RÚV á fimmtudagskvöldum. Í næsta þætti er áherslan lögð á áratuginn 1980-1990 og rætt við Davíð Þór Jónsson, Gunnar Helgason, Halldóru Geirharðsdóttur og Ingunni Snædal.

Það sem einkenndi tísku þessa áratugs voru til dæmis axlapúðar en þó sérstaklega hárspreyið, segir Ingunn Snædal. „Maður fór ekki út úr herberginu á morgnana áður en maður var búinn að túpera toppinn og vængina, og spreyja þannig að það haggaðist ekki hár á höfði okkar allan daginn. Þetta var rosaleg mál með baksýnisspegla og allt, til að líta vel út. Enda hef ég ekki greitt mér síðan, þetta var geðveikt erfitt“.

Rosalega erfitt fyrir mömmu

Fólk skiptist upp í fylkingar þar sem tónlist og tíska réðu för. Pönk og diskó var mest áberandi en Halldóra Geirharðsdóttir átti heima í hvorugum hópnum. „Pönkararnir sögðu að við værum hippar og við hötuðum diskóliðið. Þetta voru svona sterkar klíkur, með mjög sterk einkenni,“ segir Halldóra.

Mynd: Unga Ísland / RÚV

„Mér fannst pönkið ekki hallærislegt en mér fannst hallærislegt að kaupa sér dýran leðurjakka og skíta hann út og setja í hann gadda til að vera pönkari. Við vorum aftur á móti í fötum frá dýraverndunarfélaginu, sem kostuðu eiginlega ekki neitt.“

„Þetta var rosalega erfitt fyrir mömmu mína því hún er svona elegant kona sem klæðist fallegum fötum. Henni fannst mjög erfitt hvað mér fannst auðvelt að vera í ljótum fötum,“ segir Halldóra, en móðir hennar reyndi ítrekað að kaupa handa henni falleg föt án árangurs. „Ég var svolítið fangi þess að vera drusluleg, það var mín tíska. Og að ég hefði engan áhuga á tísku, það var mín tíska.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Unglingsár lýðveldis á persónulegum nótum