Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

„Þetta lep ég úr samvitundinni“

Mynd: Aðalsteinn Svanur / Aðalsteinn Svanur

„Þetta lep ég úr samvitundinni“

03.05.2017 - 18:39

Höfundar

Halldóra Thoroddsen sendi frá sér nýja ljóðabók í síðustu viku. Orðsendingar heitir hún og er fjórða ljóðabók Halldóru, en hún hefur líka skrifað nokkrar prósabækur sem náð hafa miklum vinsældum sem og eina skáldsögu, Tvöfalt gler sem nú má kalla margverðlaunaða.

Síðasta vika aprílmánaðar var sannarlega viðburðarík í lífi Halldóru Thoroddsen sem ekki aðeins fagnaði útgáfu ljóðabókarinnar Orðsendingar heldur líka því að hafa hlotið Bókmenntaverðlaun Evrópusambandsins, European Union Prize of Literature fyrir skáldsögu sína Tvöfalt gler

Ljóðabókin Orðsendingar skiptist í þrjá kafla, ber sá fyrsti yfirskriftina „og vitundin andar“, kafli tvö heitir „við er besta orðið mitt“  (Dagur Sigurðarson) og sá þriðji „vekið mig þegar þetta er búið“, sem er mælt fyrir munn lambagrassins. Þetta eru íslensk ljóð sem birta íslenskt umhverfi götumyndir frá Reykjavík, hendingar úr ljóðum genginna meistara, þetta eru ljóð um íslenska náttúru og vegferð manneskjunnar og allt er þetta sett í stærra samhengi, samhengi sögunnar og heimsins alls.