„Þetta eru þrír hljómar og sannleikurinn“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

„Þetta eru þrír hljómar og sannleikurinn“

17.08.2019 - 14:00

Höfundar

Tónlistarmaðurinn Krummi Björvinsson gaf út sitt fyrsta lag af væntanlegri sólóplötu á dögunum og mátti þar heyra ósvikna sveitatónlist. Krummi hefur ekki verið við eina fjölina felldur en segist ávallt hafa verið hrifinn af kántrítónlist, sem inniheldur jafnan þrjá hljóma og sannleikann.

Lagið Stories to Tell af væntanlegri sólóplötu Krumma kom út fyrir skemmstu og hefur gert stormandi lukku. Krummi sem vakti fyrst athygli með hljómsveitinni Mínus hefur síðustu ár komið víða við í tónlistinni. Hann starfrækti rokkbandið LEGEND, vann með Daníel Ágústi úr Gus Gus í hljómsveitinni Esju og með kærustu sinni Linneu Hellström og Frosta Jóni Runólfssyni í bandinu Döpur. Núna á sveitatónlistin hans hug allan og til að gefa okkur nasasjón af væntanlegri plötu heimsótti Krummi Stúdíó 12 með félaga sínum og helsta samverkamanni, Bjarna M. Sigurðarsyni.

„Þetta eru þrír hljómar og sannleikurinn,“ segir Krummi um það helsta sem heillar hann við sveitatónlistina. „Þetta er sveitatónlist, americana, en það er svo margt sem fellur þar undir; kántrí, blúsinn, rokk og gospel. Þetta fellur allt undir americana og ég myndi segja að þetta sé góð skilgreining á minni tónlist. Þetta er tónlistin sem ég ólst upp við og hlusta á enn þann daginn í dag og hef miklar mætur á. Þetta er bara inngróið,“ segir Krummi. 

Mynd: RÚV / RÚV
Krummi Badder Days

„Lagið heitir Badder Days og er eitt af þessum fjörutíu lögum sem ég er búinn að vera að semja í þessa veru. Þetta fjallar bara um það að reyna að láta ekki þunglyndið taka yfir. Maður á að meðtaka slæmu dagana án þess að halda að það séu endalokin. Það þarf bara að gera gott úr því og verða sterkari manneskja fyrir vikið. Svo kemur annar dagur á morgun,“ segir Krummi um lagið Badder Days. 

„Þetta eru hátt í fjörutíu lög sem eru tilbúin en svo eru þarna nokkur sem við Bjarni erum að vinna í og eru enn í lausu lofti. Við erum að pikka þau út og vinna í þegar við hittumst. Ég sem þetta heima, svo skoðum við þetta saman og Bjarni finnur gítarlínur og kemur með frábærar pælingar varðandi útsetningar,“ segir Krumi um gæfuríkt samstarf þeirra Bjarna. „Mér finnst svo gaman að koma til Bjarna með eitthvað tilbúið, af því að hann er svo flinkur gítarleikari þá á hann svo gott með að finna þessa gítarhúkka sem dregur mann inn. Það er ekki alltaf að viðlagið eða söngmelódían.“

Mynd: RÚV / RÚV
Krummi - Stories to Tell

„Þetta er eitt af fyrstu lögunum sem ég samdi þegar ég fór að skoða það að gefa út sólóplötu. Þetta er því orðið svolítið gamalt lag fyrir okkur. Þetta lag er bara um það að finna innri ró,“ segir Krummi um lagið Stories to Tell sem kom út á dögunum.

„Ég hafði sagt að platan kæmi út í haust en ég vil ekki vera að lofa neinu, þannig að núna sé ég meira fyrir mér að hún komi í vor, kannski febrúar. En það koma nokkrir singlar út á þessu ári. Það verður músik,“ segir Krummi og áætlar útgáfu þriggja laga áður en árið er allt. „Ég er að setja saman hljómsveit núna, búinn að ráða Bjarna. Það er sjálfkrafa. Við erum bara svona að skoða möguleikana, erum með nokkra í huga. Við Bjarni höfum spilað saman síðan árið 1997, meira en tuttugu ár. Það er dágóður tími. Við höfum alltaf verið hrifnir af sömu músikinni,“ segir Krummi um samstarf þeirra Bjarna. Krummi segir þá ætla að halda tónleika næstu misseri og svo þegar hljómsveitin verður klár fari þeir enn frekar á stjá.

Mynd: RÚV / RÚV
Krummi - Bird of Passage

Þriðja og síðasta lag þeirra Krumma og Bjarna heitir Bird of Passage. „Þetta fjallar um að flakka um heiminn, stelast í lestina og vita ekkert hvert hún tekur mann. Þetta er svona road trip-lag,“ segir Krummi.

Um hljóðið í Stúdíói 12 sá Gísli Kjaran og myndstjórnin var í höndum Guðnýjar Rósar Þórhallsdóttur. Matthías Már Magnússon tók á móti Krumma og Bjarna.

Tengdar fréttir

Tónlist

Kokkar sveitatónlist og sveittan grænkeramat