Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Þetta eru ekki sýndarstjórnmál“

14.09.2019 - 11:40
Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýndi afturhaldsöfl í íslenskum stjórnmálum í setningarræðu sinni á flokksráðs- og formannafundi flokksins sem nú stendur yfir á Hilton Reykjavík Nordica.

„Þegar ég heyri umræðu um sýndarstjórnmál og áferðarstjórnmál þegar ég geri tillögu um að kona gegndi embætti ráðherra, þá finnst mér menn vera algjörlega úti í skurði,“ sagði Bjarni. Hann sagði það tákn um breytta tíma að hann hafi gert tillögu um fleiri konur í ráðherraembætti en aðrir formenn Sjálfstæðisflokksins gerðu samanlagt á undan honum.

„Fyrir þá sem ekki skilja að samfélagið hefur breyst og að á árinu 2019 erum við sammála um það að við ætlum að reka þetta samfélag saman, það eigi ekki að vera tíðindi að kynin séu bæði við borðið. Við þá segi ég: Vaknið. Þetta eru ekki sýndarstjórnmál – þetta eru nútímastjórnmál,“ sagði Bjarni.

Eðlilegt að borga fyrir notkun á vegakerfinu

Bjarni fullvissaði fundarmenn um að stjórnarsamstarfið væri sterkt og að flokkunum gangi þar vel að vinna saman. Þá talaði hann um umræðuna um samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu sem hefur verið hávær að undanförnu.

„Það er að verða mikil orkuskipti og það er hagsmunamál okkar Íslendinga að þau mál gangi hraðar heldur en hægar. Ekki bara út af loftslagsmálum heldur eru stórir efnahagslegir hagsmunir fyrir okkur Íslendinga að við getum ferðast um landið og að samgöngukerfið sé drifið áfram af orku sem við sjálf búum til, en flytjum ekki inn í tankskipum að utan. Að við hættum að kaupa orkuna af öðrum þjóðum þegar við búum við orku sem við getum framleitt hér á Íslandi,“ sagði Bjarni.

Hann sagði að breytingar væru í vændum þar sem stjórnvöld ætli að gera minna af því að leggja álögur á ökutæki þegar þau koma inn til landsins. Frekar eigi að borga eftir því hvernig vegakerfið er notað.

„Þetta er eðlileg breyting. Þá verðum við farin að treysta á eigin orkuframleiðslu og passa betur upp á umhverfið og loftslagsmálin. Þannig að það er tvöfaldur ávinningur fyrir okkur að þetta geti gengið eftir.“

Áslaug hefur lyft grettistaki

Bjarni þakkaði svo Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur fyrir vel unnin störf sem ritari flokksins, en samkvæmt reglum hans má ritari flokksins ekki gegna ráðherraembætti og því verður nýr ritari kjörinn á fundinum í dag. Bjarni sagði Áslaugu hafa lyft grettistaki við að koma Sjálfstæðisflokknum inn í nútímann eftir að hún kom inn í forystu flokksins.

Hér að neðan má sjá beint streymi frá setningarræðu Bjarna á fundinum. Einnig verður streymt beint frá ræðum Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, varaformanns, og Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, fráfarandi ritara, eftir hádegi.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV