Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

„Þetta eru alvöru fjárfestar“

20.03.2017 - 12:36
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Með nýjum hluthöfum geta komið fram nýjar áherslur, segir bankastjóri Arion banka.  Hann á þó síður von á stórkostlegum breytingum til skemmri tíma. „Þetta eru alvöru fjárfestar, að leggja fram mikla fjármuni af því að þeir hafa trú á Íslandi og Arion banka,“ segir bankastjórinn.

Tæplega 30 prósenta hlutur í Arionbanka hefur verið seldur. Söluandvirðið, sem er hluti af stöðugleikaframlagi, rennur allt í ríkissjóð, tæpir 49 milljarðar króna. Féð verður nýtt til að greiða niður skuldir ríkisins. 
Með nýjum hluthöfum geta komið fram nýjar áherslur, segir bankastjóri Arion banka.  Hann á þó síður von á stórkostlegum breytingum til skemmri tíma.

Arion banki og Kaupþing tilkynntu í gærkvöldi að Kaupþing hefði selt tæplega 30% hlut í Arion banka á 48,8 milljarða króna. Samkvæmt tilkynningunni eru kaupendurnir fjárfestingarsjóðirnir Attestor Capital með 9,99% hlut, Taconic Capital Advisors UK með 9,99% hlut, félag tengt bandaríska fjárfestingarsjóðnum Och-Ziff Capital Management Group með 6,6% hlut og bandaríski fjárfestingarbankinn Goldman Sachs með 2,6% hlut. Að sjóðunum standa lífeyrissjóðir, háskólasjóðir og einkafjárfestar.Eftir kaupin á Kaupþing 57,9% í Arion banka, ríkissjóður 13%, og nýju fjárfestarnir samtals 29,2%. Fjárfestarnir hafa einnig kauprétt að 21,9% hlut til viðbótar. Höskuldur Ólafsson er bankastjóri Arion banka. Hann er sannfræður um að afnám gjaldeyrishafta hafi liðkað til fyrir þessum viðskiptum en þau hafi verið í farvatninu í lengri tíma.

„Þetta eru alvöru fjárfestar, að leggja fram mikla fjármuni af því að þeir hafa trú á Íslandi og Arion banka. Með nýjum hluthöfum geta komið inn nýjar áherslur, ég sé svo sem ekkert dramatískt fyrir mér í þeim efnum til skemmri tíma en ég á ekki von á öðru þessir hafa bara gott eitt til málanna að leggja,“ segir Höskuldur.

Ekki fáist upp gefið hvaða persónur standi að baki sjóðunum sem keyptu hlutinn:  „Það er nú þannig að við höfum ekki tök að vita það frekar en bara í eignastýringafélögum hér þetta er náttúrulega einhverjir mismunandi fjárfestar og við höfum ekki, erum ekki í aðstöðu til að þekkja það,“ segir bankastjórinn.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, rifjar upp á Facebook-síðu sinni að vogunarsjóðurinn Och-Ziff, einn af nýju eigendum Arionbanka, hafi þurft að borga himinháa sekt vegna mútumála í fimm Afríkuríkjum. Hann segir að ríkisstjórnin sé algerlega óundirbúin og stefnulaus um framtíð fjármálakerfisins.

Och-Ziff varð uppvíst að því að hafa greitt embættismönnum í Líbíu, Tsjad, Níger, Gíneu og Kongó meira en 100 milljónir dollara í mútur. Og féllst sjóðurinn á að greiða 413 milljónir dollara í sekt.

„Ég veit ekki meira um þetta heldur en það sem stendur bara í þessu á veraldarvefnum,“ segir Höskuldur og bætir við: „og eins og þar kemur fram þá urðu einhverjir starfsmenn þessa fyrirtækis uppvísir að því að hafa rangt við í þessari starfssemi og fyrirtækið leið fyrir það.“