Þetta eru áhrif verkfalls blaðamanna í dag

08.11.2019 - 11:20
Mynd með færslu
Samninganefnd Blaðamannafélagsins  Mynd: Sturla Skúlason Holm - RÚV
Félagar í Blaðamannafélagi Íslands lögðu niður störf klukkan tíu í morgun. Verkfallið, sem stendur til klukkan tvö, nær til blaðamanna á vefmiðlum, ljósmyndara og myndatökumanna hjá stærstu fjölmiðlum landsins: Fréttablaðinu, Morgunblaðinu, Ríkisútvarpinu og miðlum Sýnar. Á vefnum hefur verkfallið áhrif á starfsemi Vísis, mbl.is og frettabladid.is, en áhrif á starfsemi ruv.is eru takmörkuð þar sem stærstur hluti fréttamanna á fréttastofu RÚV er í Félagi fréttamanna, en ekki Blaðamannafélaginu.

Verkföll halda áfram næstu föstudaga og standa þá lengur. Eftir viku verður sambærilegt verkfall og í dag, en milli klukkan 10 og 18. Föstudaginn 22. nóvember stendur verkfall svo frá klukkan 10 til 22. Hafi ekki samist verður svo fjórða verkfallið fimmtudaginn 28. nóvember og nær þá til blaðamanna sem sinna störfum við prentútgáfu Morgunblaðsins og Fréttablaðsins, auk ljósmyndara og myndatökumanna.

tryggvia's picture
Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV