Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Þetta eru áherslur ríkisstjórnar Sigmundar

22.05.2013 - 11:31
Mynd með færslu
 Mynd:
Formenn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins segja í stefnuyfirlýsingu að með myndun nýrrar ríkisstjórnar hefjist ný sókn í þágu lands og þjóðar. Leiðarljós ríkisstjórnarinnar sé bættur hagur heimilanna í landinu og efling atvinnulífs með aukinni verðmætasköpun í þágu almannahags.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson kynntu stjórnarsáttmála sinn í Héraðsskólanum á Laugarvatni á tólfta tímanum.

Skuldamál heimilanna

Um skuldamál heimilanna segir meðal annars að ríkisstjórnin muni með markvissum aðgerðum taka á skuldavanda íslenskra heimila. Grunnviðmiðið er að ná fram leiðréttingu vegna verðbólguskots áranna 2007-2010. Til þess megi beita bæði beinni niðurfærslu höfuðstóls og skattalegum aðgerðum. Um verður að ræða almenna aðgerð óháð lántökutíma með áherslu á jafnræði. Beita má fjárhæðartakmörkum vegna hæstu lána og setja önnur skilyrði til að tryggja jafnræði í framkvæmd og skilvirkni úrræða, að því er segir í stjórnarsáttmálanum.

Jafnframt segir að í ljósi þess að verðtryggðar skuldir hafi hækkað og eignaverð lækkað sé rétt að nýta svigrúm, sem að öllum líkindum myndast samhliða uppgjöri þrotabúanna, til að koma til móts við lántakendur og þá sem lögðu sparnað í heimili sín. „Ríkisstjórnin heldur þeim möguleika opnum að stofna sérstakan leiðréttingarsjóð til að ná markmiðum sínum.“

Þá segir að æskilegt verði að nýta það tækifæri sem gefist samhliða skuldaleiðréttingu til að breyta sem flestum verðtryggðum lánum í óverðtryggð. Lækkun höfuðstóls nýtist þá til að koma í veg fyrir að mánaðarleg greiðslubyrði aukist verulega, jafnvel þótt lán verði greidd hraðar niður. Þannig megi koma í veg fyrir þensluhvetjandi áhrif leiðréttingarinnar og styrkja grundvöll peningastefnunnar, það sé mikilvægur liður í afnámi hafta. Sérfræðinefnd um afnám verðtryggingar af neytendalánum og endurskipulagningu húsnæðislánamarkaðarins verður skipuð á fyrstu dögum nýrrar ríkisstjórnar og mun skila af sér fyrir næstu áramót.

Efnahagsmál

Í stjórnarsáttmálanum segir að krónan verði gjaldmiðill Íslendinga um fyrirsjáanlega framtíð. Forgangsverkefni sé að yfirfara áætlun í ríkisfjármálum með hliðsjón af nýjustu upplýsingum um stöðu efnahagsmála og að setja raunhæf markmið um heildarjöfnuð í ríkisfjármálum.

„Ríkisstjórnin leggur áherslu á að skapa skilyrði fyrir hagvöxt sem knúinn verður áfram af auknum útflutningi og bættri framleiðni hjá hinu opinbera og í einkageiranum.“

Afnám hafta

Kaflinn um afnám hafta í stjórnarsáttmálanum er stuttur miðað við aðra kafla. Þar segir að afnám fjármagnshafta sé eitt mikilvægasta verkefni ríkisstjórnarinnar. Greina þurfi efnahagsstöðu þjóðarbúsins og útfæra áætlun um afnám hafta með hliðsjón af mikilvægi gjaldeyrisjöfnuðar. Sérstaklega þurfi að tryggja trausta umgjörð um gjaldeyrismarkaðinn til framtíðar og sjá til þess að skuldaskil fallinna fjármálafyrirtækja ógni ekki efnahagslegum stöðugleika.

Skattaumhverfi

Ríkisstjórnin ætlar að gera úttekt á skattkerfinu og lagðar verða fram tillögur til úrbóta með það að markmiði að einfalda skattkerfið, breikka skattstofna, minnka tekjutengingar og draga úr undanskotum. Breytingar verða gerðar á skattaumhverfi fyrirtækja í þeim tilgangi að auka framleiðslu og fjölga störfum. Þá verður tryggingagjald lækkað á kjörtímabilinu, lágmarksútsvar afnumið og tekjuskattskerfið tekið til endurskoðunar. Neysluskattar verða jafnaðir og vörugjöld endurskoðuð.

Atvinna og fjárfesting

Lagt verður kapp á að skapa starfsumhverfi sem ýtir undir fjárfestingu og fjölgun starfa, ekki síst hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Áhersla verður lögð á vöxt útflutningsgreina og nýsköpun. Þá mun ríkisstjórnin beita sér fyrir endurskoðun regluverks atvinnulífsins með einföldun og aukna skilvirkni að leiðarljósi. 

Sérstakt markmið er að engar nýjar íþyngjandi reglur verði innleiddar fyrir atvinnulífið án þess að um leið falli brott jafnveigamiklar kvaðir. Þannig munu heildaráhrif regluverksins þróast í rétta átt.“

Sátt við aðila vinnumarkaðarins

Í sáttmálanum stendur meðal annars að unnið verði að víðtækri sátt við aðila vinnumarkaðarins um þróun vinnumarkaðar og uppbyggingu til framtíðar. Þannig verði undirstöður velferðar treystar og sköpuð skilyrði fyrir bættri afkomu heimilanna.

Utanríkismál

Ríkisstjórnin hyggst gera hlé á aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið. Ekki verður haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.

Stefna Íslands í utanríkisviðskiptum mun taka mið af þeim öru breytingum sem eru að verða á efnahagskerfum heimsins. Möguleikar til að auka útflutning til svæða þar sem eftirspurn vex stórum skrefum á komandi árum verði kannaðir frekar og tengsl við viðkomandi svæði styrkt. Ríkisstjórnin hyggst leggja áherslu á gerð fleiri fríverslunarsamninga, bæði tvíhliða og á vettvangi EFTA.

Þá segir í sáttmálanum að lögð verði áhersla á þróunarsamvinnu og öfluga þátttöku í fjölþjóðlegu samstarfi um sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda. Enn fremur verði staðið að neyðar- og mannúðaraðstoð við bágstaddar þjóðir.

Innanríkismál

Ríkisstjórnin leggur áherslu á að efla löggæsluna og lögreglan mun fá auknar heimildir til skilvirkari aðgerða gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Lögð verður áhersla á frekara samráð við sveitarfélögin um flutning verkefna til þeirra. Áhersla verður lögð á að bæta stjórnsýsluna og auka skilvirkni hennar og þar með þjónustu ríkisins. Stefnt er að því að millidómsstig verði tekið upp, bæði í einka- og sakamálum.

Sjávarútvegsmál

Í sáttmálanum segir að fiskveiðistjórnunarkerfið verði yfirfarið, meðal annars með tilliti til hagkvæmni, öryggis og kjara sjómanna og umhverfisverndar. Stefnt er að því að auka sveigjanleika í nýtingarstefnu án þess að fórna ábyrgri stjórnun og nýtingu veiðistofna. Grundvöllur fiskveiðistjórnunar verður aflamarkskerfi. Áfram verður unnið með tillögu sáttanefndar sem starfaði á liðnu kjörtímabili um að samningsbundin réttindi um nýtingu aflaheimilda taki við af varanlegri úthlutun.

Lög um veiðigjald verða endurskoðuð. Almennt gjald skuli endurspegla afkomu útgerðarinnar í heild en sérstakt gjald taka sem mest mið af afkomu einstakra fyrirtækja.

Landbúnaður

„Ríkisstjórnin lítur á landbúnað sem eina af mikilvægustu atvinnugreinum framtíðarinnar.“ Ríkisstjórnin mun gera íslenskum landbúnaði kleift að nýta þau sóknarkerfi sem greinin stendur frammi fyrir. Með það fyrir augum er brýnt að kanna með hvaða hætti er unnt að auka verðmætasköpun og nýta sem best tækifærin sem felast í sveitum landsins. Til að bregðast við aukinni eftirspurn eftir matvælum og hækkandi verðlagi verður skipaður starfshópur til að móta tillögur um hvernig auka megi matvælaframleiðslu á Íslandi. 

Velferðarmál

Ríkisstjórnin telur húsakost spítalans óviðunandi og að mikilvægt sé að farið verði í endurbætur og viðhald á núverandi húsa- og tækjakosti stofnunarinnar þar til varanlegt lausn fæst. Einnig verður unnið að því að auka almenn lífsgæði landsmanna með því að efla starf á sviði forvarna og lýðheilsu. Ríkisstjórnin telur brýnt að unnið verði að langtímastefnumótun heilbrigðiskerfisins svo tryggja megi betur hagkvæmni og stöðugleika innan kerfisins. Ný lög um greiðsluþátttöku vegna lyfjakostnaðar þarf að taka til athugunar segir í stjórnarsáttmálanum.

Skerðingar á frítekjumarki vegna atvinnutekna og fjármagnstekna aldraðra og öryrkja sem tóku gildi árið 2009 verða afturkallaðar.

Mennta- og menningarmál

Áhersla verður lögð á að taka upp samstarf við hagsmunaaðila í menntamálum um þróun menntakerfisins og auka gæði menntunar. Með samstarfinu verði meðal annars leitað leiða til að stytta nám á háskólastigi og auka samfellu milli skólastiga. Ríkisstjórnin leggur áherslu á að styðja við skapandi greinar, auka áherslu á menntun í iðn- og listgreinum og efla tengsl þeirra við atvinnulífið. 

Umhverfismál

Ríkisstjórnin hyggst beita hvetjandi aðgerðum í efnahagslífinu og ýta undir græna starfsemi með því að nýta vistvæna orkugjafa enn frekar við samgöngur. Lögð er áhersla á að náttúrurvernd og náttúrunýting fari saman. Í sáttmálanum segir að landbúnaður í ómengaðri náttúru og sjálfbær sjávarútvegur feli í sér mikil markaðstækifæri sem geti lagt grunn að auknum útflutningi og sterkri ímynd landsins.  

Jafnréttismál

Fjárhagslegt sjálfstæði einstaklinga er grundvöllur jafnréttis. Ríkisstjórnin stefnir á að huga sérstaklega að fjárhagslegu sjálfstæði einstaklinga óháð hjúskaparstöðu, sér í lagi þegar kemur að skatta-, lífeyris- og örorkumálum. Þá verður lögð áhersla á að jafna stöðu foreldra.

Áfram unnið að endurskoðun stjórnarskrárinnar

Áfram verður unnið að endurskoðun stjórnarskrárinnar. Lögð verður áhersla á ákvæði um þjóðareign á auðlindum og um þjóðaratkvæðagreiðslur um lög Alþingis að frumkvæði verulegs hluta kjósenda. Í sáttmálanum segir að endurskoðun stjórnarskrárinnar muni fara fram undir umsjón og á ábyrgð Alþingis.

Flugvöllurinn áfram í Vatnsmýri

Stefnt er að því að auka hlutverk sveitarstjórna við forgangsröðum verkefna í héraði. Unnið verður að samgöngubótum með áherslu á tengingu byggðar. Í stefnuyfirlýsingunni segir að Reykjavíkurflugvöllur sé grundvallarþáttur í samgöngum landsins. Til þess að hann geti gegnt sínu mikilvæga þjónustuhlutverki gagnvart landinu öllu þarf að tryggja framtíðarstaðsetningu hans í nálægð við stjórnsýslu og aðra þjónustu. 

Stofnun ríkisolíufélags

Ríkisstjórnin ætlar eins og kostur er að stuðla að því að nýting hugsanlegra olíu- og gasauðlinda geti hafist sem fyrst, finnist þær í vinnanlegu magni. Í því skyni verður ráðist í undirbúningsvinnu vegna samgöngumála, slysavarna og björgunarstarfa, umhverfisverndar, innviða, samstarfs við nágrannalönd og regluverks, ásamt því að stofna sérstakt ríkisolíufélag. Tilgangur félagsins verður að halda utan um leyfi til olíu- og gasvinnslu og leggja grunn að því að hugsanlegur ávinningur nýtist samfélaginu öllu.

Ferðaþjónusta

Um ferðaþjónustu segir að fallið verði frá áformum fyrri ríkisstjórnar um hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu. Leitast verður við að nýta betur tækifæri á sviði menningartengdrar ferðaþjónustu og efla heilsárs ferðaþjónustu. Kannaðir verða möguleikar á gjaldtöku til uppbyggingar ferðamannastaða.