Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Þetta er óboðlegt, herra forseti”

21.01.2019 - 15:24
Mynd með færslu
 Mynd:
Þingmennirnir Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson, sem báðir standa nú utan flokka eftir Klausturmálið, stigu í pontu Alþingis og lýstu yfir furðu sinni að hafa ekki fengið úthlutað ræðutíma á þessum fyrsta degi þingsins eftir jólafrí. Karli Gauta varð heitt í hamsi og sagði vinnubrögð þingforseta óboðleg.

Ræddu báðir um fundarstjórn forseta við upphaf þingfundar

Karl Gauti Hjaltason þingmaður utan flokka tók til máls við upphaf þingfundar undir liðnum fundarstjórn forseta til að kvarta undan því að hvorki hann né Ólafur Ísleifsson fái að tala við umræðu á Alþingi í dag. 

„Ég er annar tveggja þingmanna sem starfar utan flokka. Við óskuðum eftir því að tillit yrði tekið til þess,  en höfum engin svör fengið síðan við sendum svar til forseta 3. desember. Þetta er óboðlegt, herra forseti.” sagði Karl Gauti. 

Segir vinnubrögð vekja furðu

Karl Gauti og Ólafur voru báðir í Flokki fólksins en voru reknir eftir að Klausturupptökurnar urðu opinberar. Ólafur tók í sama streng og Karl Gauti um fundarstjórn forseta. Hann sagði vinnubrögð forseta Alþingis vekja furðu og valda vonbrigðum því hann hafi staðið í þeirri trú þar til rétt áður en umræðan hófst að hann myndi vera meðal ræðumanna. 

Engar beiðnir borist til hans

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, svaraði þingmönnunum með því að engar óskir um þátttöku þeirra höfðu borist inn á hans borð. Ekki hafi verið hægt að hverfa frá því samkomulagi sem lægi fyrir um fundinn, en hann sagði að réttur þeirra sem þingmenn utan flokka, eins og kemur fram í þingsköpum, verði virtur. 

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV
johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV