Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Þetta er glæpastarfsemi“

09.02.2019 - 19:45
Mynd:  / 
Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, segir að framkoma starfsmannaleigunnar Menn í vinnu í garð rúmenskra verkamanna sé ekkert annað en glæpastarfsemi. Hún segir að eftirlitsaðilar verði að taka höndum saman og beita þeim heimildum sem eru til staðar. Í þessu tilfelli hafi heimildir Vinnumálastofnunar þrotið og þá verði lögreglan að taka við.

Unnur sagði í kvöldfréttum í sjónvarpi að Menn í vinnu hafi verið í gjörgæslu hjá Vinnumálastofnun frá því á haustdögum, þegar fjallað var um fyrirtækið í fréttaskýringaþættinum Kveiki. „Við höfum aflað allra þeirra gagna sem okkar lagaheimildir heima okkur. Allt frá launaseðlum, ráðningarsamningum, tímaskýrslum, þjónustusamningum, nefndu það. Það var ekkert að finna þarna, nema það var allt eðlilegt og leit allt vel út.“

Hún segir þó að fundist hafi smá misræmi í gögnum sem kært hafi verið til lögreglu í desember. „Því var því miður vísað frá í janúar.“

„Það er alveg hræðilegt að þetta skuli viðgangast. Það verður að taka höndum saman núna og stoppa þetta,“ segir Unnur. „Það er alveg nauðsynlegt. Allir verða að taka höndum saman. Þetta er glæpastarfsemi. Þetta er ekkert annað.“

Unnur segir að gera þurfi betur, formgera samstarf eftirlitsaðila sem koma að þessum málum. „Svo við getum fundið þetta fyrr eða líka beitt öllum þeim heimildum sem eru til staðar. Þarna þrýtur okkur heimildir og þá verður eiginlega lögreglan að taka við því þarna er bara um mjög alvarlega brotastarfsemi að ræða.“