Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

„Þetta er alveg fáránleg bók“

Mynd: hallaharðar  / hallaharðar

„Þetta er alveg fáránleg bók“

21.01.2018 - 13:40

Höfundar

Codex Seraphinianus eftir Luigi Serafini er mögulega skrítnasta alfræðiorðabók sögunnar, enda hefur hún enga merkingu. Teikningarnar og óskiljanlegur textinn hafa valdið mörgum heilabrotum, þar á meðal listakonunum Lóu Hjálmtýsdóttur og Jóhönnu Maríu Einarsdóttur. Víðsjá kynnti sér bókina.

Menn með hamarshöfuð fletta skinnið af beinagrind, hreindýrshöfuð vex upp úr blómapotti, tré ganga niður að sjó og synda í burtu, þyrlubíll framleiðir regnboga og fólk sem elskast umbreytist í krókódíl. Teikningarnar fylla blaðsíðurnar, stundum ein á hverri síðu, stundum margar. Höfundur virðist vera að útskýra óþekkta veröld eða einhverskonar kerfi. En kerfi fyrir hvað?Myndunum fylgir handskrifaður texti en hann er gjörsamlega óskiljanlegur. Tungumálið er ekki til. Hvað er að gerast og í hvaða veröld erum við komin? Við erum stödd í veröld Luigis Serafinis, eins og hún birtist á síðum bókarinnar sem tók hann 3 ár að semja; Þetta er Codex Seraphinianus.

Mynd með færslu
 Mynd: Codex Seraphinianus

„Þetta er alveg fáránleg bók og ég mæli með því að drösla henni frá einhverju landi eða borga ógeðslega mikið fyrir að panta hana til Íslands. Ég tek hana alltaf með mér þegar ég er að kenna í Myndlistaskólanum eða Listaháskólanum því mér finnst bara að allir verði að sjá þessa bók,“ segir Lóa Hjálmtýsdóttir í samtali við Víðsjá, sem hægt er að hlusta á í spilaranum hér að ofan, en hún er ein þeirra sem hafa heillast upp úr skónum af bókinni.

Mynd með færslu
 Mynd: Halla Harðardóttir

Þessi 300 síðna bók, sem líkist frekar handriti, er eins og súrrealísk alfræðiorðabók sem útskýrir á óþekktu tungumáli veröld sem þú hefur aldrei kynnst fyrr. Serafini var 24 ára gamall starfandi arkitekt í Róm þegar hann hóf að teikna myndirnar sem þremur árum síðar áttu eftir að verða Codex Seraphinianus. Bókin var fyrst gefin út af ítalska útgefandanum Franco Maria Ricci árið 1981 í Róm og síðan þá hefur hún verið eftirlæti safnara um allan heim. Auk þess að starfa sem arkitekt hefur Serafini einnig unnið sem grafískur hönnuður og teiknari fyrir tímarit og kvikmyndir og hann vann um tíma sem leikmyndahönnuður hjá Fellini. Í seinni tíð hefur hann alfarið snúið sér að myndlist og keramík-gerð og rekur í dag gallerí í ítalskri sveitasælu, ekki langt frá Róm.

Serafini hefur sagt borgina eilífu hafa veitt sér innblástur við gerð bókarinnar, en hann hefur einnig sagt þá gömlu góðu daga, þegar hann sat sveittur við skrifborðið og teiknaði furðuheim í hálfgerðu transástandi, dagana þegar Fellini og stjörnufylking hans ráfuðu um stræti Rómar án þess að festast inni í stórum hóp af ferðamönnum með snjallsíma í annari og ískaldan gellatto í hinni, vera löngu talda.  Faðir Serafinis veitti honum einnig innblástur við gerð bókarinnar, en hann sagði ungum Serafini sögur úr stríðinu, sögur sem hræddu ungan drenginn og sem áttu eftir að renna óvænt undan penna hans mörgum árum síðar.

Mynd með færslu
 Mynd: Codex Seraphinianus

Texti Codex Seraphinianus hefur valdið mörgum miklum heilabrotum. Svo miklum að heilu félögin hafa verið stofnuð til að reyna að lesa merkingu úr textanum. Við erum svo vön því að tungumál hafi merkingu, og skrifaður texti við mynd sem virðist vera upp úr alfræðiorðabók úr geimnum, eykur á þessa forvitni okkar. Við þörfnumst þess að finna merkingu.

„Margir hafa reynt að skilja textann,“ hefur Serafni sagt í viðtali, „en stundum þurfa hlutirnir ekki að segja eitthvað til að merkja eitthvað. Skilningur kemur ekkert endilega með greiningu. Og flokkun tegunda eftir einhverskonar greiningu þarf ekkert að vera rétt eða röng. En fólk á erfitt með að trúa því að ég hafi staðið í því að búa til þessa bók, án þess að á bak við hana lægi einhverskonar sannleikur. Sjálfur er ég ráðgáta rétt eins og allar aðrar manneskjur.“

Mynd með færslu
 Mynd: hallaharðar  - hallaharðar

Með tilkomu internetsins tóku safnarar og aðrir grúskarar að deila myndum úr bókinni og þannig hóf frægðarsól bókarinnar að vaxa, og sömuleiðis Serafinis, sem sjálfur hefur sagt að hugmynd hans með bókinni hafi einmitt verið nokkurs konar blogg á undan sinni samtíð. Að með bókinni hafi hann langað til að ná til fólks sem hann tengdist ekki annars, til breiðari hóps en þess sem sótti listagallerí Rómar í upphafi níunda áratugarins. Í stað þess að hengja myndirnar á vegg, vildi hann ná til fleira fólks og á þeim tíma hafi útgáfa bókar verið besta leiðin til þess.

Mynd með færslu
 Mynd: hallaharðar  - hallaharðar

„Ég rakst á bókin á facebook og heillaðist af þessu. Ég held að það sé mjög margt í bókinni minni sem kemur af facebook. Það getur verið frjór jarðvegur, þó hann geti líka verið ófrjór,“ segir listakonan og rithöfundurinn Jóhanna María Einarsdóttir í samtali við Víðsjá. Jóhanna gaf út skáldsöguna Pínulítil kenopsía. Varúð hér leynast krókódíla í fyrra og einn kafli bókarinnar nefnist einfaldlega Codex Seraphinianus. Hún segist fyrst og fremst hafa heillast af bókinni sökum þess hversu ógeðslega skrítin hún sé, en merkingarleysan hafi líka heillað hana. „Luigi hefur sagt að það sé enga merkingu að finna. Mér finnst það áhugavert. Að taka merkingarleysunni sem hlut sem hægt er að samþykkja. Það eru svo margir sem samþykkja ekki merkingarleysuna og ég held að það sé takmarkandi.“

Mynd með færslu
 Mynd: Halla Harðardóttir
Mynd með færslu
 Mynd: hallaharðar  - hallaharðar