Þetta er að gerast um helgina

Mynd með færslu
 Mynd: Rúv

Þetta er að gerast um helgina

10.05.2019 - 11:35
Þá er helgin gengin í garð. Við tókum saman það helsta sem fram fer um helgina. Mikið fjör verður í bænum hvort sem fólk elskar söngleiki eða enska boltann.

 

Una Stef á Kex hostel

Söngkonan Una Stef mun koma fram ásamt hljómsveit á Kex hostel föstudagskvöldið 10. Maí. Tónleikarnir hefjast kl. 21:00 og er frítt inn.  Una hefur verið áberandi í íslensku tónlistarlífi síðastliðin ár, hún mun ásamt hljómsveit frumflytja glænýtt efni á tónleikunum. Við mælum með að hita upp með því að hlusta á Unu á Spotify. 

 

A star is born í Gamla bíó

Á síðasta ári kom út kvikmyndin A star is born með þeim Bradley cooper og Lady Gaga í aðalhlutverkum. Tónlistin í myndinni hefur aldeilis slegið í gegn og unnið til fjölda verðlauna. Föstudagskvöldið 10. Maí ætla þau Stefanía Svavarsdóttir og Svenni Þór ásamt hljómsveit að halda tónleika í Gamla bíó og taka helstu lög þessarar vinsælu kvikmyndar. 

Útskriftarhátíð Listaháskóla Íslands

Útskriftarhátíð Listaháskóla Íslands er í fullum gangi og um helgina fara fram   útskriftarsýningar hjá nemendum á Sviðshöfundabraut. Í Nýlistasafninu og á    Kjarvalstöðum eru útskriftarnemendur í myndlistardeild að sýna verk sín.

Úrslitin í enska boltanum

Á sunnudaginn fara fram úrslitin um enska deildarmeistaratitilinn. þetta er í fyrsta sinn í langan tíma þar sem úrslitin ráðast ekki fyrr en í lokaumferðinni. Liverpool keppir á móti Wolverhampton Wanderers og Brighton & Hove Albion keppir á móti Manchester City. Það má því búast við brjáluðum fagnaðarlátum í miðbæ Reykjavíkur þegar úrslitin eru orðin ljós. 

Próflokadjamm

Nú hafa flest allir háskólanemar lokið prófum og geta farið að anda léttar. Um helgina verður próflokafögnuður hjá flestum deildum háskólans og óhætt að segja að háskólanemar verði eins og kýr að vori þegar líður á nóttina.